Play flutti 63.949 farþega í febrúar og sætanýting félagsins var 76,9%. Í tilkynningu flugfélagsins segir að sætanýting í ferðum til og frá París og London hafi verið yfir 90%.

Um 31% af farþegum Play í febrúar ferðuðust frá Íslandi, 37% til Íslands og 32% voru tengifarþegar. Stundvísi félagins í febrúar var 84.3%.

Play segir að meðalfargjald fyrir árið 2023 hafi hækkað um 19% frá síðasta ári „og mun hækka frekar eftir því sem nær dregur sumrinu“. Þá haldi einingatekjur félagsins áfram að hækka „og eru þegar orðnar hærri fyrir alla mánuði ársins miðað við á sama tíma í fyrra“.

„Febrúar var annar metsölumánuðurinn í röð hjá Play. Í janúar og febrúar 2023 jafngiltu tekjur af seldum sætum tveimur sölumánuðunum í fyrra. Þetta er ótvírætt til marks um aukna eftirspurn og styrk sölu og leiðarkerfis Play.

„Við erum stolt af því að febrúar sé annar metsölumánuðurinn í röð, bókunarstaðan fyrir komandi mánuði sé sterk og tekjuvöxtur mikill. Það sama á við um eftirspurn til og frá Íslandi. Þá halda einingatekjurnar áfram að hækka, jafnvel þó að framboð hafi vaxið mikið en það er ótvíræður vitnisburður um að vörumerkið okkar hafi styrkst og til marks um góðan árangur í sölu- og markaðsmálum. Þessi jákvæða þróun fyllir okkur bjartsýni fyrir komandi ár,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.

„Engu að síður gerum við okkur fulla grein fyrir árstíðarbundnum sveiflum í eftirspurn og sníðum okkur stakk eftir vexti hverju sinni. Okkar grein er þannig uppbyggð að fjárhagslegar niðurstöður hvers árs eru mjög háðar vor- og sumarmánuðunum (öðrum og þriðja ársfjórðungi) á meðan eftirspurn róast og verðið lækkar yfir veturinn (á fyrsta og fjórða ársfjórðungi). Almennt byrjar árið 2023 mjög vel hjá félaginu.

Bókunarflæði er sérstaklega kröftugt. Meðaltekjur á farþega eru að hækka og það er meðalverð flugfargjalda einnig að gera. Um leið státum við af einstakri stundvísi í flugferðum félagsins. Þessir jákvæðu vísar eru sterkt merki þess að við erum á leið inn í öflugt vor og síðan sumar – og ég er viss um að okkar frábæra starfsfólk mun halda áfram að byggja upp þetta öfluga flugfélag með miklum glæsibrag.“