Kauphöll Íslands hefur til skoðunar upptöku nýs viðskiptakerfis sem annaðhvort valmöguleika eða skyldu við viss skilyrði fyrir hlutabréf skráðra félaga á First North-hliðarmarkaðnum.
Kerfið verður tekið upp í byrjun næsta árs í 2-3 systurkauphöllum þeirrar íslensku á Norðurlöndunum og felur í sér að kaup- og sölutilboð í hlutabréf vissra félaga verða ekki pöruð saman jafnóðum eins og almennt í dag heldur á nokkrum föstum, reglulegum tímapunktum yfir daginn, þar á meðal við opnun og lokun viðskipta.
Hugsunin er sú að með því muni nást fram betri pörun milli kaup- og sölutilboða en ellegar, þar sem tími gefist til að safna saman nokkrum tilboðum í stað þess að sá sem vill kaupa eða selja á markaðsgengi gangi beint inn í útistandandi tilboð, sem geta verið töluvert langt frá síðasta gengi.
„Þau eru að gera þetta með þau félög sem minnstan seljanleika hafa á First North-mörkuðunum þar. Hugsunin er að þjappa saman seljanleikanum á tiltölulega fáa punkta. Við höfum hugsað okkur að bíða aðeins og sjá hver reynslan verður af þessu úti áður en við tökum endanlega ákvörðun, en við höfum verið að velta því fyrir okkur hvort við eigum að bjóða upp á eða jafnvel gera kröfu um að félög með enga viðskiptavakt, þar sem verðbilið milli tilboða er mikið, taki þetta kerfi upp,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar meðal annars um málið í samtali við Viðskiptablaðið.
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út á miðvikudag.