Stjórnvöld í Kólumbíu hafa sett fram lagafrumvarp um bann á sölu á öllum varningi sem heiðrar minningu fíkniefnabarónsins Pablo Escobar. Bannið myndi ná yfir hluti eins og stuttermaboli, glös, lyklakippur og fleira.

Hinn alræmdi glæpamaður Pablo Escobar var drepinn af kólumbískum sérsveitarmönnum árið 1993 en frægð hans lifir hins vegar áfram í gegnum bækur og þáttaraðir á Netflix.

Í Kólumbíu má finna ýmsar vörur í ferðamannabúðum sem prýða bæði andlit Escobar og nafn hans en slíkar vörur eru mjög vinsælar meðal ferðamanna í landinu.

Heimamenn sjá hann hins vegar í allt öðru ljósi en tímabil hans var skilgreint af sprengjuárásum, mannránum og hárri morðtíðni. Talið er að Pablo Escobar hafi borið ábyrgð á rúmlega fjögur þúsund dauðsföllum.

„Erfið mál sem eru hluti af sögu og minningu okkar lands eiga ekki að lifa sem minning á stuttermabol eða á límmiða á götuhorni,“ segir Juan Sebastián Gómez, þingmaður og meðhöfundur frumvarpsins.

Hin fyrirhuguðu lög myndu banna sölu, sem og notkun á fötum og hlutum sem heiðra glæpamenn eins og Escobar. Þeir sem brjóta lögin gætu verið sektaðir og gætu sölumenn einnig átt von á því að missa rekstrarleyfi sitt.

Ekki allir sammála banninu

Margir sölumenn í Kólumbíu segja hins vegar að bannið myndi skaða starfsemi þeirra. Ein af þeim er sölukonan Joana Montoya sem rekur sölubás í vinsælu ferðamannahverfi í Medellín, heimaborg Pablo Escobar.

„Þetta er hræðilegt. Við eigum rétt á að vinna og þessir Pablo-bolir seljast sérstaklega vel. Þessi Escobar-varningur hjálpar mörgum fjölskyldum hér við að borga leigu, kaupa mat og sjá um börnin okkar.“

Joana bætir við að Escobar-vörurnar samsvari rúmlega 15% af allri sölu hennar. Sumir sölumenn hafa sagt við fréttastöðina BBC að hjá þeim væri hlutfallið allt að 60%.

Stór hluti af kólumbískri menningu

Maria Jimenez Pacifico, eigandi kólumbíska veitingastaðarins Mijita á Íslandi, segist skilja hvers vegna fólk í Kólumbíu vilji banna slíkan varning en telur að slíkt bann myndi ekki hafa mikil áhrif á minningu Escobar.

Hún segir í samtali við Viðskiptablaðið að meðhöfundur frumvarpsins hafi bent á að bolir með myndum af Hitler eða Mussolini finnist ekki í þýskum eða ítölskum ferðamannabúðum.

Maria segir að það sé vissulega rétt en bætir við að þær þjóðir séu hins vegar mun ríkari og að menning þeirra sé allt öðruvísi en menningin í Kólumbíu.

„Auðvitað er ég ekki hrifinn af Pablo Escobar en ég þarf líka að horfa á þetta frá hinni hliðinni. Ef ríkisstjórnin ætlar að banna svona sölu þá eru sektirnar allar að fara að renna beint til yfirvalda. Ætlar ríkisstjórnin sem sagt að sekta fátækt fólk til að hjálpa sér að græða meiri pening?“

Maria segir meðallaunin í Kólumbíu vera í kringum 30-40 þúsund krónur á mánuði og neyðist því margir sölumenn til að selja ferðamönnum slíkar vörur, sama hvað þeim finnst um einstaklinginn sem er framan á þeim.

Hún bendir líka á að Pablo Escobar sé mjög rótgróin persóna í kólumbískri menningu og að hann hafi haft aðkomu að mörgu öðru en bara fíkniefnum. Hann hafi til að mynda haft mikil áhrif á útlit kvenna í landinu og þá sérstaklega þegar kemur að fegurðarsamkeppnum.

„Þegar ég vann sem fyrirsæta þá var ég til dæmis mjög mikið að berjast gegn því sem kallast Narco Aesthetic en það er orð yfir þessa týpu af konu sem Pablo Escobar bjó til á þessum tíma.“

Í byrjun áttunda áratugarins, þegar fyrstu smyglararnir frá Kólumbíu fóru til Bandaríkjanna, voru vændishús algengir fundarstaðir þar sem viðskipti fóru fram. Þar að auki var mikill uppgangur í tímaritum eins og Hustler og Playboy og fengu því smyglararnir að kynnast öllum hliðum þeirrar menningar.

Þegar þeir sneru heim til Kólumbíu notuðu þeir peninginn sinn og völd til að gera lýtaraðgerðir mjög aðgengilegar og náðu menn eins og Pablo Escobar að gjörbreyta fegurðardrottningarlandslaginu í Kólumbíu.

„Hann tók konur sem voru fegurðardrottningar og breytti þeim með alls konar lýtaaðgerðum og í dag er Kólumbía eitt ríkasta land í heimi þegar kemur að slíkum aðgerðum.“

„Ef þú ert með sár þá er skiljanlegt að þú viljir setja plástur á það“

Maria segir að konur í Kólumbíu aðhyllist einnig sjálfar ákveðna macho-menningu sem kveður á um að karlmenn eigi að vera sterkir og eigi að borga fyrir allt og tengist það líka þessum mafíuheimi. „Þetta er bara því miður svo rótgróið inni í kólumbískri menningu.“

Plástur á sárið

Maria spyr einnig hvort lögin eigi bara við um Kólumbíu. „Hvað með önnur lönd eins og Kína? Heldur þú að restin af heiminum ætli að hætta að prenta út myndir af Pablo Escobar? Er áætlunin þá að sekta þitt eigið fólk og gleyma bara restinni af heiminum?“

Hún segir Pablo Escobar vissulega vera slæma ímynd fyrir Kólumbíu og að hann sé í raun ekkert annað en blóðminning.

„Ég held að við ættum frekar að einblína á önnur skilaboð sem tryggja að þetta gerist ekki aftur, því sagan má ekki endurtaka sig. Ef þú ert með sár þá er skiljanlegt að þú viljir setja plástur á það, en þegar upp er staðið þá er þetta ekki lausnin.“

Maria leggur til dæmis til að fræða heimamenn og ferðamenn um þennan tíma, svipað og er gert í Auschwitz eða á fjöldamorðssvæðum Rauðu Khmeranna í Kambódíu. Hún segir að eiturlyfjabarónar hafi haldið heilli þjóð niður með ofbeldi, spillingu og hryðjuverkum í meira en 50 ár en með því að banna myndir af Escobar er aðeins verið að gefa minningu hans meira vægi.

„Það ætti að fara í heljarinnar átak, bæði innan og utan Kólumbíu. Narcos eru morðingjar og glæpamenn sem lifa á hræðslu og fátækt almennings en Escobar er bara eitt rotið epli úr landi sem hefur svo margt annað fallegt og heilbrigt upp á að bjóða,“ segir Maria.