Sahara og Diskó hafa skrifað undir samstarfssamning sem felur í sér að Sahara muni styðja við sölu til nýrra viðskiptavina, innleiðingu og ráðgjöf til fyrirtækja sem hafa áhuga á að nýta sér SMS-lausn Diskó.
Lausnin gerir fyrirtækjum kleift að safna viðskiptavinum í vildarklúbba og senda þeim SMS-tilkynningar, til dæmis til að láta vita af afsláttardögum eða nýjum tilboðum.
„Diskó byrjaði sem mjög saklaus hugmynd en okkur fannst fyrirtæki oft eiga í miklum vandræðum með að ná til bestu viðskiptavina sinna á hagkvæman og markvissan hátt hérna heima á Íslandi. Samstarfið við Sahara er kærkomið en með því getum við einbeitt okkur að því að þróa Diskó áfram til að það nýtist fyrirtækjum sem best,“ segir Gunnar Kolbeinsson, meðstofnandi Diskó.
Fyrirtæki geta þá einnig tengt Diskó við sölukerfin sín, eins og Shopify, til að senda viðskiptavinum sjálfvirk SMS.
„Eftir að hafa kynnt okkur Diskó og þá lausn sem þau bjóða upp á, sáum við að þarna væru gríðarleg tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki sem þau gætu nýtt sér á einfaldan og skilvirkan hátt og erum við full tilhlökkunar að byrja að innleiða Diskó til okkar viðskiptavina,“ segir Sigurður Svansson, framkvæmdastjóri Sahara.