Lýðveldið Kongó hefur höfðað mál gegn dótturfyrirtækjum Apple í Belgíu og Frakklandi en þjóðin sakar tæknifyrirtækið um að notast við svokölluð átakasteinefni í aðfangakeðju sinni.
Kongó býr yfir stórum forða sjaldgæfra málma og steinefna sem notuð eru í framleiðslu á tölvum og farsímum. Sumar námur eru þó reknar af skæruliðahópum sem taka þátt í fjöldamorðum og öðrum glæpum gegn almennum borgurum.
Apple segir að það verði sér ekki út um steinefnin á eigin spýtum heldur notist fyrirtækið við birgja. Það segir jafnframt að það notist við eftirlitsaðila til að rekja uppruna steinefnanna.
Lögfræðingar í málinu halda því hins vegar fram að Apple notist við steinefni sem eru stolin frá Kongó og færð í alþjóðlegar aðfangakeðjur, þar sem uppruni þeirra er þurrkaður út. Þeir segja að fyrirtækið taki því óbeint þátt í þeim glæpum sem eiga sér stað í Kongó.