Skipið Amelía Rose, sem er í eigu Sea Trips Reykjavik, var stöðvað af varðskipi Landhelgisgæslunnar í morgun. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar tóku yfir stjórn skipsins, sem var með farþega í hvalaskoðun, og sigldu því í land. Þegar þangað kom tóku lögreglumenn á móti farþegum og töldu upp úr skipinu, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Tilefni aðgerða Landhelgisgæslunnar er að Amelía Rose á að hafa siglt of langt út á haf að gefnum farþegafölda um borð. Um er að ræða í sjöunda sinn sem Amelíu Rose er snúið við eftir að starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa tekið skipið yfir, en í sex önnur skipti hefur skipinu verið snúið við eftir símtal frá Landhelgisgæslunni. Þá hafa lögreglumenn mætt fimmtán sinnum þegar Amelía leggst að bryggju og talið farþega.

Sea Trips furðar sig á framferði Samgöngustofu og Landhelgisgæslunnar í ljósi þess að vorið 2021 sýknaði Héraðsdómur Reykjavíkur fyrirtækið af öllum kröfum hins opinbera varðandi farsvið og farþegafjölda. Dómnum var ekki áfrýjað. Í tilkynningunni segir að héraðssaksóknari hafi þurft að vísa frá fleiri kærum sama efnis eftir að dómurinn féll.

„Þrátt fyrir þetta neitar Samgöngustofa að breyta haffærnisskírteini Amelíu Rose í samræmi við niðurstöðu dómsins og Landhelgisgæslan heldur áfram að framfylgja ólöglegum ákvörðunum Samgöngustofu,“ segir í tilkynningunni sem Svanur Sveinsson, framkvæmdastjóri og eigandi Sea Trips, undirritar.

„Sú meðferð sem Amelía Rose og Sea Trips hafa fengið hjá Samgöngustofu er ekki hægt að kalla neitt annað en einelti. Vart er hægt að finna skýrara dæmi um mismunun opinberra aðila og misbeitingu valds,“ skrifar Svanur og bætir við að Amelía Rose sé eitt „fullkomnasta og öruggasta“ skip sem siglir með farþega í útsýnissiglingar frá Reykjavíkurhöfn.

Fyrirtækið segir að þrátt fyrir niðurstöðu Héraðsdóms hafi Samgöngustofa ákvarðað sérstakt hafsvæði, sem markast m.a. af línu milli Engeyjar og Viðeyjar, þar sem Amelía Rose verður að halda sig séu farþegar fleiri en 12 talsins.

„Þetta sérmerkta hafsvæði á sér ekki stoð í lögum eða reglugerðum, heldur var það markað af starfsfólki Samgöngustofu. Á meðan mega miklu minni bátar, sem ekki eru með sambærilegan öryggisbúnað, sigla með fleiri farþega mun lengra frá landi.“

Tap vegna aðgerðanna vel á annað hundrað milljónir

Sea Trips segir að tap vegna þessara aðgerða hlaupi á vel á annað hundrað milljónir króna. Svanur segir að fyrirtækið ætli að standa á rétti sínum og áskilur sér rétt til að sækja betur vegna þess skaða sem það hafi orðið fyrir og muni verða fyrir ef Samgöngustofa lætur ekki af þessari „mismunun“.

„Það vill enginn standa í stríði við hið opinbera og lengi vel vonuðumst við til að hægt væri að leysa úr þessum ágreiningi við Samgöngustofu með einhverjum hætti og höfum við gert allt sem í okkar valdi stendur til að finna lausn á málinu. Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir því að framtíð fyrirtækisins og afkoma okkar, starfsfólks  og fjölskyldna, er í hættu vegna óútskýrðrar og óútskýranlegrar mismununar af hálfu opinberra stofnana.“

Tilkynning Sea Trips Reykjavik í heild sinni:

Í morgun, miðvikudaginn 13. apríl var Amelía Rose, skip í eigu Sea Trips Reykjavik, stöðvuð af varðskipinu Þór, þar sem hún var að sigla með ferðamenn í hvalaskoðun. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar komu um borð í Amelíu Rose, tóku yfir stjórn skipsins og sigldu henni í land. Þegar þangað kom tóku lögreglumenn á móti farþegum og töldu upp úr skipinu.

Þetta er í sjöunda sinn sem Amelíu Rose er snúið við eftir að starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa tekið skipið yfir, en í sex önnur skipti hefur skipinu verið snúið við eftir símtal frá Landhelgisgæslunni. Þá hafa lögreglumenn mætt fimmtán sinnum þegar Amelía leggst að bryggju og talið farþega. Er þetta gert að undirlagi Samgöngustofu, sem gefur út haffærniskírteini fyrir öll skip og báta sem sigla með ferðamenn.

Átyllan er ævinlega sú sama: Amelía Rose er sögð sigla of langt út á haf – miðað við farþegafjölda um borð.  Það sem er óskiljanlegt við aðfarir Landhelgisgæslunnar og Samgöngustofu er að vorið 2021 féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem Sea Trips var sýknað af öllum kröfum hins opinbera varðandi farsvið og farþegafjölda. Dómnum var ekki áfrýjað. Eftir að dómurinn féll hefur héraðssaksóknari þurft að vísa frá fleiri kærum sama efnis. Þrátt fyrir þetta neitar Samgöngustofa að breyta haffærniskírteini Amelíu Rose í samræmi við  niðurstöðu dómsins og Landhelgisgæslan heldur áfram að framfylgja ólöglegum ákvörðunum Samgöngustofu.

Sú meðferð sem Amelía Rose og Sea Trips hafa fengið hjá Samgöngustofu er ekki hægt að kalla neitt annað en einelti. Vart er hægt að finna skýrara dæmi um mismunun opinberra aðila og misbeitingu valds. Amelía Rose er eitt fullkomnasta og öruggasta skip sem siglir með farþega í útsýnissiglingar frá Reykjavíkurhöfn og þótt víðar væri leitað á landinu. Skipið er með tvær vélar, tvær skrúfur og tvö stýri, innisæti fyrir 106 manns og björgunarbúnað fyrir 125 manns. Þrátt fyrir það hefur Samgöngustofa ákvarðað sérstakt hafsvæði, sem markast m.a. af línu milli Engeyjar og Viðeyjar, þar sem Amelía Rose verður að halda sig séu farþegar fleiri en 12 talsins. Þetta sérmerkta hafsvæði á sér ekki stoð í lögum eða reglugerðum, heldur var það markað af starfsfólki Samgöngustofu. Á meðan mega miklu minni bátar, sem ekki eru með sambærilegan öryggisbúnað, sigla með fleiri farþega mun lengra frá landi. Tap Sea Trips vegna þessara aðgerða nemur háum fjárhæðum, vel á annað hundrað milljónum króna.

Það vill enginn standa í stríði við hið opinbera og lengi vel vonuðumst við til að hægt væri að leysa úr þessum ágreiningi við Samgöngustofu með einhverjum hætti og höfum við gert allt sem í okkar valdi stendur til að finna lausn á málinu. Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir því að framtíð fyrirtækisins og afkoma okkar, starfsfólks  og fjölskyldna, er í hættu vegna óútskýrðrar og óútskýranlegrar mismununar af hálfu opinberra stofnana.

Við stöndum áfram á rétti okkar og áskiljum okkur rétt til að sækja bætur vegna þess skaða sem við höfum þegar orðið fyrir, og munum verða fyrir, ef Samgöngustofa lætur ekki af þessari mismunun.

Svanur Sveinsson, framkvæmdastjóri og eigandi Sea Trips.