Viðskiptablaðið fjallaði í vikunni um ríkisstyrki til Hagsmunasamtaka heimilanna (HH), sem berjast fyrir afnámi verðtryggingar. Samtökin fengu 14,1 milljón króna í ríkisstyrk á síðustu tveimur árum, samkvæmt nýútgefinni ársskýrslu þeirra.

Í henni lýsir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður HH og þingmaður Flokks fólksins, því að einn helsti styrkur samtakanna sé „hversu málefnalega baráttu þau hafa rekið, alveg frá upphafi. Þau hafa ekkert gefið eftir í málflutningi sínum en aldrei verið með innantómar upphrópanir eða farið með fleipur.“

Ásthildur Lóa gengur skrefi lengra og segir það vera „staðreynd sem vert er að halda á lofti, að aldrei hefur verið hægt að hrekja nokkuð í málflutningi samtakanna“.

Í sama ávarpi ber hún saman greiðslubyrði 40 ára óverðtryggðs láns og verðtryggðs láns til 25 ára og bendir í kjölfarið á margfalt hærri mánaðarlega meðalgreiðslu verðtryggða lánsins (sem virðist m.a. byggja á forsendum um óbreytt vaxtarkjör og að verðbólga verði áfram langt yfir markmiði Seðlabankans næstu áratugina).

„Þetta er glæpur gegn þjóðinni og ég vil ganga svo langt að kalla þetta landráð,“ segir Ásthildur Lóa. Hún bætir við að framganga bankanna gagnvart heimilum landsins sé „landráð af verstu sort“.

„Staða heimilanna er ekki slæm vegna verðbólgunnar, heldur vegna þess að tekin hefur verið meðvituð ákvörðun um það að koma heimilum landsins á vonarvöl og færa bönkunum þau á silfurfati,“ skrifar Ásthildur Lóa. Hún segir að heimilin gætu siglt í gegnum 10% verðbólgu ef ekki væri fyrir núverandi húsnæðislánakerfi.

Ásthildur Lóa fór mikinn á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í síðustu viku og spurði þar seðlabankastjóra að því hvort vaxtahækkanir væru verðbólguhvetjandi. Jafnframt sagðist hún líta svo á að vaxtahækkanir Seðlabankans í 10% verðbólgu væru eins og að „reyna að bjarga einhverjum frá drukknun með því að hella yfir hann meira vatni“.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Hagsmunasamtök heimilanna í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær, 2. mars 2023.