Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, hefur svarað gagnrýni Kolbrúnar Halldórsdóttur, formanns BHM, og Sonju Ýrar Þorbergsdóttur, formanns BSRB, á úttekt ráðsins um sérréttindi opinberra starfsmanna.
Samkvæmt úttekt Viðskiptaráðs njóta opinberir starfsmenn sérréttinda sem jafngilda um 19% kauphækkun miðað við einkageirann. Í úttektinni kemur m.a. fram að vinnuvikan sé að meðaltali 3,4 klukkustundum styttri hjá opinberum starfsmönnum samanborið við starfsfólk í einkageiranum.
Kolbrún Halldórsdóttir, formaður BHM, gagnrýndi úttektina, sakaði viðskiptaráð um þráhyggju og sagði samanburð ráðsins á starfskjörum í einkageiranum og hinu opinbera ómarktækan. Hún sagði vaktavinnu, vægi hlutastarfa og ólíkt eðli starfa skýra muninn í vinnustundum.
Kolbrún segist telja réttara að bera aðeins saman starfsmenn sem skilgreindir eru sem fullvinnandi. Sá samanburður gefur raunar til kynna að vinnutími sé lengri hjá hinu opinbera.
Þá skrifaði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, grein á Vísi í síðustu viku þar sem hún sagði „strákana á Viðskiptaráði“ stunda stöðugar árásir á fjölmennar kvennastéttar á opinberum vinnumarkaði.
Geti verið hagstæðara að vinna hlutastörf hjá hinu opinbera
Í aðsendri grein á Vísi undir fyrirsögninni „Sérréttindablinda BHM og BSRB“ sagðir Björn Brynjúlfur að sú forsenda sé villandi því hún dragi dul á önnur sérréttindi opinberra einkageiranum. Hann stendur fast á því að réttara sé að styðjast við meðalfjölda vikulegra vinnustunda í aðalstarfi, líkt og gert var í úttekt ráðsins.
„Í einkageiranum telst aukavinna þeirra sem eru í hlutastarfi ekki til yfirvinnustunda sé hún innan hefðbundins vinnutíma. Það þekkist hins vegar hjá hinu opinbera. Þess vegna getur verið hagstæðara að vinna hlutastörf hjá hinu opinbera en í einkageiranum,“ segir Björn Brynjúlfur.
„Sem dæmi voru greiddar yfirvinnustundir hjá þeim sem eru í hlutastarfi á Landspítalanum flestar hjá þeim sem eru í lægsta starfshlutfallinu, eða undir 20% starfshlutfalli.“
Hann segir villandi hjá Kolbrúnu að fullyrða um að ef aðeins sé litið til fullvinnandi einstaklinga vinni starfsmenn hins opinbera lengri vinnuviku en þeir í einkageiranum, miðað við greiddar vinnustundir. Þessi forsenda hylji enn önnur sérréttindi til viðbótar.
„Á vef Hagstofunnar segir að greiddar stundir geti falið í sér vanmat á vinnustundum vegna fastlaunasamninga en einnig ofmat á unnum stundum vegna óunninna fastra yfirvinnutíma. Fastlaunasamningar eru tíðari í einkageiranum og almennt minna um yfirvinnustundir. T.d. er vægi yfirvinnugreiðslna af reglulegum launum undir 1% hjá félagsmönnum BHM í einkageiranum en 9% hjá þeim sem vinna hjá ríkinu.
Þá eru fastir yfirvinnutímar opinberra starfsmanna að jafnaði 17,6 klukkustundir mánaðarlega hjá þeim sem fengu greidda yfirvinnu skv. fjármálaráðuneytinu. Þannig geta ómældar vinnustundir opinberra starfsmanna numið 10% af greiddum vinnustundum skv. viðmiði Kolbrúnar.”
Björn Brynjúlfur segir Kolbrúnu einnig líta fram hjá fleiri atriðum í úttektinni sem bendi til styttri vinnutíma hjá hinu opinbera.
Hann bendir þannig á að samkvæmt úttekt KPMG á innleiðingu tilraunaverkefnis um styttingu vinnuvikunnar komi fram að 77% opinberra stofnana fóru í hámarksstyttingu í einu skrefi. „Slík stytting á sér enga hliðstæðu í einkageiranum.”
„Almenningur hefur sennilega orðið áskynja áhrifa styttri vinnuviku hjá hinu opinbera í formi skertrar þjónustu. Til dæmis var nýlega ákveðið að farsælast væri að innleiða styttri vinnuviku hjá Heilsugæslunni í Borgarnesi með því að skerða þjónustuna. Héðan í frá er heilsugæslan lokuð eftir hádegi á föstudögum.
Þá hefur styttingin einnig valdið manneklu í skurðaðgerðum á Landspítalanum. Þess vegna kemur ekki á óvart að í úttekt KPMG lækka 13 af 15 stofnunum í þjónustukönnunum á tímabilinu sem stytting vinnuvikunnar átti sér stað, þvert á yfirlýst markmið verkefnisins og fyrri fullyrðingar formanns BSRB.“
Björn Brynjúlfur nefnir einnig að ekki hafi verið gerðar athugasemdir við önnur sérréttindi sem vakin varpað er ljósi á í úttektinni á borð við ríflegri veikindarétt, þrefalda uppsagnarvernd og lengra orlof opinberra starfsmanna.
„Sérréttindi opinberra starfsmanna fela í sér misræmi gagnvart starfsfólki í einkageiranum. Þau standa hagkvæmni í opinberum rekstri fyrir þrifum, torvelda samanburð á launakjörum og skekkja umræðu um kjaramál. Viðskiptaráð leggur til að réttindi opinberra starfsmanna verði jöfnuð réttindum starfsfólks í einkageiranum. Jafnlangar vinnuvikur, jafnt starfsöryggi, jafn veikindaréttur og jafn orlofsréttur.“