Bill Gates hefur sakað Elon Musk, ríkasta mann í heimi samkvæmt Forbes, um að „drepa fátækustu börn heims“ með skerðingum á framlögum til Alþjóðaþróunarstofnunar Bandaríkjanna (USAID).
„Ásýndin að ríkasti maður heims sé að drepa fátækustu börn heims er ekki falleg,“ segir Gates í viðtali við Financial Times.
DOGE, nýsköpunarverkefni innan bandarísku ríkisstjórnarinnar sem Musk fer fyrir, lagði í reynd niður Alþjóðaþróunarstofnun Bandaríkjanna, sem vinnur að mannúðar- og þróunarverkefnum víða um heim, í febrúar síðastliðnum. Um 1.600 manns sem störfuðu hjá stofnuninni innanlands misstu vinnuna.
Gates, einn stofnenda Microsoft, segir að Musk hafi sýnt af sér vanþekkingu með ákvörðuninni. Gates segir að nauðsynlegur matur og lyf í vöruhúsum séu nú af skornum skammti sökum þess hversu hratt var ráðist í skerðingarnar. Það gæti ýtt undir útbreiðslu sjúkdóma á borð við mislinga, alnæmi, og mænusótt.
Gates segir að Musk hafi fellt niður framlög til sjúkrahúsa í Gaza héraðinu í Mósambík, sem hafi stuðlað að því að koma í veg fyrir að börn alnæmismitaðra óléttra kvenna myndu einnig smitast, út frá þeim misskilningi að Bandaríkin væru að dreifa smokkum til Hamas á Gaza svæðinu í Miðausturlöndum.
Musk viðurkenndi í febrúar að hafa ruglast á mósambíska hérðainu Gaza fyrir landssvæði Palestínumanna.
„Ég myndi gjarnan vilja sjá hann fara þangað og hitta börnin sem hafa smitast af alnæmi vegna þess að hann hefur skert framlögin,“ sagði Gates.
Tvöfaldar framlög til Gates Foundation
Gates tilkynnti í dag um að góðgerðarsamtökin Gates Foundation muni verja meira en 200 milljörðum dala á næstu tuttugu árum í góðgerðarmál. Það er um tvöfalt hærri fjárhæð en áður var stefnt að. Til stendur að leggja Gates samtökin niður 31. desember 2045.
Gates, sem er þrettándi ríkasti maður heims með auðæfi upp á 112,6 milljarða dala samkvæmt Forbes, segist hafa ákveðið að gefa frá sér nær öll auðæfi sín til Gates Foundation á næstu tveimur áratugum með það að markmiði að bjarga og bæta mannslíf víða um heim. Stefnt er að því að börn Gates erfi minna en 1% af auðæfum hans.
Með þessari ráðstöfun telur Gates að hann geti hámarkað áhrif framlaga sinna til góðra málefna. Hann telur mögulegt að hægt verði að finna lausnir til að útrýma mænusótt og alnæmi.