Bandaríski rapparinn Sean Combs, betur þekktur sem Diddy, hefur sakað breska vínframleiðandann Diageo um kynþáttamismunun. Diddy segir að Diageo hafi takmarkað dreifingu á tekíla drykknum sem söngvarinn framleiðir og mun fyrirtækið einnig hafa dregið úr sölu til innri hverfa stórborga.

Diageo hefur vísað ásökununum á bug en samkvæmt kvörtun Diddy fjárfesti fyrirtækið meira í samkeppnisaðilum.

Í yfirlýsingu frá vínframleiðandanum segir að málið tengist viðskiptadeilu og engu öðru. Fyrirtækið segist leggja mikla áherslu á fjölbreytileika og segir það leiðinlegt að rapparinn skuli líta á deiluna frá öðru sjónarmiði.

Fyrirtækið hefur viðhaldið samstarfi við söngvarann í mörg ár en Diageo selur einnig fræg vörumerki á borð við Johnnie Walker, Guinness og Tanqueray.

Diddy hefur meðal annars vitnað í samtal sem hann átti við stjórnendur Diago árið 2019 þegar honum var sagt að vörumerki hans myndi seljast betur ef hann væri Martha Stewart.

„Við virðum Sean Combs sem listamann og frumkvöðul, en ásakanir hans á hendur fyrirtækisins eru órökstuddar og við erum fullviss um að staðreyndirnar sýni að meðferð hans hafi verið mjög sanngjörn,“ segir í yfirlýsingu frá Diageo.