Sala á Wegovy og Saxenda, offitulyfjum danska lyfjafyrirtækisins Novo Nordisk jókst um 56% milli ára á árinu 2024 og nam 65,1 milljarði danskra króna, sem nemur 1300 milljörðum íslenskra króna miðað við gengi krónunnar á síðasta ári.

Þetta kemur fram í ársuppgjöri sem félagið birti í morgun.

Þá jókst sala á sykursýkislyfjunum Rybelsus, Ozempic og Victoza um 21% á milli ára og nam 149 milljörðum danskra króna, eða sem nemur tæplega 3000 milljörðum íslenskra króna.

Heildarsala jókst um 26% milli ára og nam 290 milljörðum danskra króna, eða um 5800 milljörðum íslenskra króna. Fyrirtækið hagnaðist um 101 millljarð danskra króna, eða sem nemur rúmlega 2000 milljörðum íslenskra króna.

Gengi bréfa félagsins hækkaði um rúm 5% í viðskiptum dagsins í dönsku kauphöllinni og stóð í 622,30 dönskum krónum í lok dags.

Aukinn rekstrarhagnaður

Félagið áætlar að tekjuvöxtur dragist saman á komandi ári og verði á bilinu 16% til 24%. Rekstrarhagnaður muni hins vegar aukast milli ára um á bilinu 19% til 27%.

Haft var eftir Lars Fruergaard Jørgensen, forstjóra Novo Nordisk, í viðtali hjá FT að auknar tekjur félagsins muni líkt og áður vera drifnar áfram af aukinni eftirspurn eftir offitu- og sykursýkislyfjum.