Sala hjá tæknirisanum Apple virðist hafa náð sér aftur á strik eftir mikla lægð í Kína undanfarið og minnkandi sölu á iPhone-símum. Tekjur fyrirtækisins á öðrum ársfjórðungi þessa árs námu 85,8 milljörðum dala, sem er 5% aukning milli ára.

Tilkynningin kemur samhliða mikilli lækkun meðal annarra tæknifyrirtækja í Bandaríkjunum.

Hlutabréf í Intel lækkuðu til að mynda um meira en 19% eftir að hafa tilkynnt að það muni fækka starfsmönnum sínum um 15.000. Amazon lækkaði einnig um 4% og er búist við enn frekari lækkun á næstu misserum.

Markaðir vestanhafs þegar kemur að tæknifyrirtækjum hafa verið hikandi undanfarnar vikur vegna spár um velgengni gervigreindar. Fjárfestar virðast vera orðnir þreyttir á þeim mikla kostnaði sem fer í gervigreind og eru mörg fyrirtæki farin að missa móðinn.

Apple hefur hins vegar náð að standa sig ágætlega í þeim málum en fyrirtækið gaf meðal annars nýlega út hugbúnaðinn Apple Intelligence. Kerfið auðveldar iPhone-notendum að taka upp og afrita símtöl, búa til sérsniðna broskalla og eiga í meiri samskiptum við Siri.