Seðlabankinn tilkynnti fyrir helgi að gjaldeyrisforði bankans hefði í lok janúarmánaðar numið 732,7 milljörðum króna og aukist um 65,7 milljarða á milli mánaða. Þetta er nær 10% aukning á forðanum í einum mánuði sem verður að teljast umtalsvert og því eðlilegt að spurt sé hvaða þættir valdi þessari miklu aukningu.

Í því skyni sendi Viðskiptablaðið fyrirspurn til Seðlabankans og fékk þau svör frá Stefáni Jóhanni Stefánssyni, ritstjóra á skrifstofu bankastjóra, að meginskýringin fælist í greiðslu vegna sölu á eignum Eignasafns Seðlabanka Íslands, ESÍ, erlendis en auk þess mætti rekja ástæður aukningarinnar til svokallaðra Avens-samninga og gjaldeyrisskiptasamninga við innlenda banka.

Seðlabankinn kynnti gjaldeyrisskiptasamninga þessa í upphafi ársins, 3. janúar, og Avens-samningar varða fjármálagjörninga fallinna íslenskra banka í eigu erlendra seðlabanka, þá aðallega seðlabankans í Lúxemborg. Ekki fengust nánari upplýsingar um hvaða erlenda eign það var sem greiðsla barst fyrir en þar sem helsta erlenda eign ESÍ var danski bankinn FÍH má gera ráð fyrir að greiðslan hafi tengst sölu bankans.