Falsaðir miðar á Ólympíuleikana og falsaðir miðar á Taylor Swift-tónleika eru tvö stærstu netsvindl sem neytendur eru líklegir til að lenda í á þessu ári samkvæmt bresku viðskiptasamtökunum UK Finance. Viðvörunin kemur eftir umtalsverða aukningu netsvindla á síðasta ári.
Árið 2023 náðu glæpamenn að stela meira en 15 milljörðum króna frá breskum neytendum í gegnum svindl þar sem neytandi greiddi fyrir vöru eða þjónustu sem varð síðan aldrei að veruleika.
Samtökin segja að þetta samsvari 28% aukningu frá árinu 2022 en á síðasta ári var um að ræða meira en 156 þúsund tilvik.
„Á hverju ári sjáum við hringrás svindla sem breytast stöðugt. Ólympíuleikarnir og Taylor Swift-tónleikar eru tvö stærstu dæmin sem við höfum séð á þessu ári,“ segir Ben Donaldson, framkvæmdastjóri efnahagsbrota hjá UK Finance.
Llyods Bank greindi frá því í apríl að Taylor Swift-aðdáendur hefðu tapað samtals 1 milljón punda fyrir tónleikaferðalag hennar í Bretlandi sem hefst nú í júlí. Fleiri en 600 viðskiptavinir bankans komu fram til að tilkynna um fjárhagstapið.
Breska fjármálaeftirlitið segir að svikarar hafi oft sannfært fórnarlömb sín um að greiða fyrir vörur með millifærslu í stað þess að gera það í gegnum opinbera síðu. Í ársskýrslu UK Finance segir að slík svindl hafi aukist í heimsfaraldri en nokkur árangur sé þó að nást í baráttunni gegn þeim.