Sala hjá hjólreiðafyrirtækinu Lauf Cycles nam 265 milljónum króna í marsmánuði, sem er rúmlega 60% aukning miðað við sama tímabil í fyrra þegar sala fyrirtækisins nam rúmlega 165 milljónum króna.

Í tilkynningu segir að árið 2025 hafi farið vel af stað en sala hjá Lauf Cycles jókst um 35% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Félagið er jafnframt að ljúka fjármögnunarlotu.

„Undanfarin þrjú ár hefur Lauf Cycles unnið að uppsetningu á öflugri samsetningarverksmiðju í Virginíu-fylki í Bandaríkjunum. Verksmiðjan færir félaginu aukið rekstrarhagræði og öryggi, sérstaklega á þeim umbrotstímum sem nú ríkja. Lauf skilaði sterkum rekstrarárangri árið 2024, með verulega bættri afkomu og söluaukningu upp á ríflega 18%,“ segir í tilkynningu.

Benedikt Skúlason, stofnandi og framkvæmdastjóri Lauf Cycles, segir að á næstu misserum megi búast við fjölmörgum nýjum og spennandi vörum frá fyrirtækinu. „Það er auðvitað alveg magnað að sjá tæplega 500 hjól rúlla út úr verksmiðjunni okkar núna í mars. Þetta fyllir okkur stolti og hleypir kappi í kinn, en við erum rétt að byrja.“