Sala Porsche dróst saman á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samkvæmt uppgjöri bílaframleiðandans. Á vef WSJ segir að sala hafi aukist í Bandaríkjunum en það sama má ekki segja um Evrópu og Kína.
Þýski sportbílaframleiðandinn greindi frá 37% söluaukningu í Norður-Ameríku frá janúar til mars. Hins vegar dróst sala saman í Kína um 42% og í Evrópu um 10%.
Í heimalandi Porsche dróst sala einnig saman um 34% og var þá heildarsamdráttur hjá fyrirtækinu um 8% á heimsvísu þar sem bílaframleiðandinn seldi aðeins 71.470 bíla. Þá fóru pantanir að minnka um leið og tilkynnt var um 25% tolla á alla innflutta bíla til Bandaríkjanna.
Hlutabréf Porsche, sem skráð eru í Frankfurt, hafa lækkað um tæplega fjórðung frá áramótum en Porsche hefur ekki viljað tjá sig um hversu mikið tollarnir hafi haft áhrif á söluna.
Porsche Macan var þó enn söluhæsti bíllinn á tímabilinu og jukust afhendingar á þeim bíl um 14% í 23.555 stykki. Þá segir að meira en 60% af þeim bílum hafi verið rafbílar.