Bílasamstæðan Renault Group tilkynnti í morgun að sala hjá flaggskipinu Renault hefði dregist saman fjórða árið í röð. Renault seldi 1,47 milljónir bifreiða utan Rússlands á síðasta ári sem er um 9,4% samdráttur frá fyrra ári.
Í umfjöllun Reuters segir að franski bílaframleiðandinn hafi orðið fyrir stærra höggi en flestir keppinautar sínar vegna Covid-faraldursins, raskana á aðfangakeðjum og skorti á örgjörvum. Félagið vinnur nú að því að bæta afkomu sína.
Samstæðan veðjar nú á bíla með hærri framlegð og rafbíla. Hún benti á að Renault, sem vegur um tvo þriðju af sölu samstæðunnar, var þriðji söluhæsti bílaframleiðandi á sviði rafbíla í Evrópu, aðeins á eftir Tesla og Toyota. Renault seldi 228 þúsund rafbíla í álfunni í fyrra, sem er 12% aukning frá fyrra ári.
Fabrice Cambolive, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Renault, sagðist bjartsýnn á að sölutölur bílaframleiðandans verði betri í ár. Hann viðurkenndi þó að verðlækkanir Tesla gætu reynst félaginu erfiðar. „Þetta verður áskorun fyrir alla,“ sagði Cambolive við blaðamenn.