Sala Tesla á heimsvísu dróst saman um 13,5% á öðrum ársfjórðungi þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra. Á vef WSJ segir að rafbílaframleiðandinn hafi selt 384.122 bíla en spár gerðu ráð fyrir rúmlega 387 þúsund afhendingum.

Hlutabréf Tesla hafa lækkað um tæp 20% undanfarna sex mánuði en bílaframleiðandinn hefur átt í erfiðleikum með viðsnúning á sölu.

Sérfræðingar segja að stór ástæða sé andstaða neytenda gegn vörumerkinu og forstjóra þess, Elon Musk, sem hefur verið umdeildur vegna þátttöku hans í stjórnmálum. Tesla hefur þó einnig unnið við að færa sig meira yfir í sjálfkeyrandi bíla.

Stjórnendur Tesla segjast hins vegar ekki deila áhyggjum sérfræðinga á Wall Street vegna minnkandi sölu og benda þess í stað á mögulega uppsveiflu vegna fjárfestinga í sjálfkeyrandi hugbúnaði fyrirtækisins.

Tesla gaf einnig út endurnýjaða og ódýrari útgáfu af Model Y-jeppanum í mars og kynnti síðan minni útgáfu af Cybertruck mánuði seinna. Model S og Model X-bílarnir voru einnig uppfærðir í síðasta mánuði.