SaltPay hefur tekið upp nýtt nafn og heitir nú Teya. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu þar sem segir að Teya sé þjónustuveitandi á sviði rekstrarlausna og bjóði upp á alhliðaþjónustu á því sviði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Teya bjói ekki einungis upp á þjónustu sína á Íslandi, heldur einnig um alla Evrópu og hafi nú formlega tilkynnt um nafnabreytingu á öllum starfsstöðvum sínum í Evrópu.

„Teya hefur leitt saman fjölda fjártæknifyrirtækja sem og greiðsluþjónustuveitenda víðsvegar um Evrópu – þar á meðal íslensku greiðslumiðlunina Borgun, síðar þekkt sem SaltPay, með það að markmiði að styðja við vöxt fyrirtækja með heildstæðri lausn fyrir greiðslu- og rekstrarlausnir. Lausnum Teya er ætlað að styðja við einfaldleika í rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja er viðkemur þeim hugbúnaði sem þau nota.

Frá stofnun hefur Teya einblínt á að gera greiðslur einfaldari fyrir viðskiptavini sína með notendavænum lausnum, svo sem; rafrænum sölukerfum, greiðsluuppgjöri næsta virka dag, samþættingu við hugbúnað þriðja aðila, þjónustuvef og greiðslutenglum. Lausnir Teya standa viðskiptavinum til boða með sanngjörnum og gagnsæjum viðskiptaskilmálum, með einfaldri gjaldskrá, án nokkurrar bindingar. Markmiðið er að það sé einfalt fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að nýta tæknilausnir í rekstri sínum,“ segir í fréttatilkynningu.

Viðskiptavinir Teya muni geta fengið aðgang að alls kyns verkfærum, ýmist núna eða í náinni framtíð; þar á meðal rafrænu vildarkerfi, vefsíðukerfi, auglýsingakerfi, rafrænu sölukerfi (ePOS), bókunarkerfi, auk greiðsluþjónustu. „Þetta þýðir að í framtíðinni munu þeir geta skipt við einn birgi í stað margra ólíkra sem eru með mismunandi samninga, reikninga og skilmála. Viðskiptavinir munu einnig geta tengst kerfum þriðja aðila með Teya – eins og SalesCloud, DineOut og/eða Noona, þar sem Teya er á meðal fjárfesta, sem og öðrum aðilum sem hjálpa til við reksturinn.“

Jónína Gunnarsdóttir, forstjóri Teya Ísland:

„Við tókum miklum framförum á síðasta ári og náðum góðum árangri í rekstri félagsins hér á landi – bæði hvað varðar arðsemi en ekki síður með því að fjölga viðskiptavinum okkar um 20% í hópi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Við erum nú bakhjarl nærri þriðjungs allra fyrirtækjaeigenda í landinu og erum við mjög spennt fyrir næsta kafla í sögu fyrirtækisins undir merkjum Teya.

Vörumerkið Teya og gildi þess endurspegla þá trú okkar að fólk eigi betra skilið þegar kemur að þeim verkfærum sem þau hafa til að reka fyrirtækin sín. Þau eiga að hafa aðgang að einföldum verkfærum, með einfalda skilmála, svo þau viti alltaf hvar þau standa. Þau eiga að hafa traustan samstarfsaðila sem skilur þarfir þeirra og þróar lausnir sem henta þeim. Þess vegna erum við að hanna vörur sem gera hlutina einfaldari, auka val viðskiptavina og draga úr hindrunum, með fleiri möguleikum á samþættingu og samstarfi við þriðju aðila. Okkar markmið er að losa fólk við allt það sem tekur gleðina úr því að reka fyrirtæki – og við trúum því að okkar lausnir muni gera einmitt það, sem og að einfalda daglega greiðsluþjónustu.“