Heildarfjöldi farþega Icelandair var 333 þúsund í nýliðnum októbermánuði, samanborið við um 206 þúsund í október í fyrra. Sætanýting í innanlands- og millilandaflugi var 80,2% og flugframboð var nánast það sama og í október 2019 eða 99%. Þetta kemur fram í tilkynningu. Heildarfjöldi farþega Icelandair það sem af er ári er kominn yfir þrjár milljónir.
Farþegar í millilandaflugi voru um 307 þúsund samanborið við 181 þúsund í október 2021. Fjöldi farþega til Íslands var 133 þúsund, rúmlega 43% af heildarfjöldanum, og frá Íslandi 58 þúsund. Tengifarþegar voru 116 þúsund. Stundvísi var 80%. Sætanýting í millilandaflugi var 80,2% samanborið við 68,9% í október 2021.
Fjöldi farþega í innanlandsflugi var 26 þúsund, samanborið við rúmlega 25 þúsund í október í fyrra. Stundvísi var 88% og hefur náðst góður árangur í að auka stundvísi í innanlandsflugi. Sætanýting í innanlandsflugi var 80,8% samanborið við 74,5% í október 2021.
Seldir blokktímar í leiguflugi voru 26% fleiri en í október í fyrra. Fraktflutningar minnkuðu um 20% miðað við sama tíma í fyrra.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:
„Það er ánægjulegt að sjá að nú í októbermánuði hefur leiðakerfið okkar náð fyrri styrk. Flugframboð var á pari við framboðið á sama tíma 2019 og það sem af er ári höfum við flutt yfir þrjár milljónir farþega. Þá höfum við einnig bætt stundvísi í innanlandsfluginu en eins og fram hefur komið höfum við farið í markvissar aðgerðir til að bæta áreiðanleika og þjónustu í innanlandsflugi að undanförnu.“