Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir það hafi komið sér spánskt fyrir sjónir í gær þegar hann heyrði Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar segja að hún hafi haft það sem viðmið í ríkisfjármálum að ,,gera ekki tillögu um eina krónu í útgjöld án þess að tvær komi á móti til að vinna gegn verðbólgu."
Þetta kom fram í ræður Kristrúnar á eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gærkvöldi. Bjarni segir hljóð og mynd ekki alveg fara saman.
„Við afgreiðslu fjárlaga 2023 gerði Samfylkingin tillögu um 9 milljarða ný útgjöld. Samkvæmt þessu viðmiði, sem sagt er að Samfylkingin fylgi, hefðu átt að koma tillögur um 18 milljarða nýjar tekjur og afkoman þá orðið 9 milljörðum betri,“ skrifar Bjarni í færslu í dag.
„Það ætti að vera nokkuð óumdeilt að 9 milljarða betri afkoma er tæplega til þess fallin að breyta miklu um raunverulegt aðhaldsstig ríkisfjármálanna. Í því sambandi má geta þess að afkoma ríkissjóðs stefnir nú í að verða 90 milljörðum betri á árinu en áður var gert ráð fyrir,“ bætir Bjarni við.
Bjarni segist ekki kannast við neina tillögu frá Samfylkingunni um níu milljarða betri afkomu.
„Afkomubatinn samkvæmt tillögunni sem Kristrún sjálf mælti fyrir átti að vera 4 milljarðar eða innan við helmingur af þessu yfirlýsta viðmiði. Sú fjárhæð hefði sannarlega engin áhrif haft á aðhaldsstigið.“
„Í reynd var þetta því gamla pólitíkin um hærri skatta og meiri útgjöld, sama gamla Sam-fylkingin - stærra ríki og auknar tilfærslur. Pólitík sem engu raunverulegu hefði skilað í baráttunni við verðbólguna,“ skrifar Bjarni að lokum.