Vegna umfjöllunar um verðlagseftirlit Alþýðusambands Íslands (ASÍ) hefur Melabúðin sent frá sér tilkynningu en þar segir að Melabúðin sé sérverslun með sælkeravörur og hefur í gegnum tíðina ekki verið hluti af verðlagseftirliti ASÍ, enda er rekstur einnar hverfisverslunar í vesturbæ Reykjavíkur allt annars eðlis en stórra verslanakeðja.
„Melabúðin sérhæfir sig í fjölbreyttri matvöru, þar á meðal kjöti og fiski, sem unnin er á staðnum af fagfólki og eftir óskum viðskiptavina.
Ferskleiki, gæði og persónuleg þjónusta eru í forgrunni og gera Melabúðina einstaka í íslensku verslunarumhverfi, sem samhliða býður upp á dagvörur sem spara fjölskyldum sporin í innkaupum fyrir heimilin,“ segir í tilkynningu Melabúðarinnar sem Dýrleif Birna Sveinsdóttir verslunarstjóri Melabúðarinnar skrifar undir.
Í tilkynningunni segir einnig að „samanburður á verði án tillits til gæða, þjónustu og vöruvals dregur upp skakka mynd og tekur ekki tillit til sérstöðu sérverslana eins og Melabúðarinnar í samkeppni við stórar verslanakeðjur.“
Stórmarkaðir geta í krafti stærðar sinnar keypt vörur í miklu magni á lægra verði.
„Melabúðin keppir á hinn bóginn á grundvelli mikillar útsjónarsemi, mikilla gæða og persónulegrar þjónustu. Viðskiptavinir okkar kjósa að versla í sínu nærumhverfi og hefur búðin verið hluti af líflegri hverfismenningu, sem teygir anga sína jafnvel um allt höfuðborgarsvæðið.
Rétt er að taka fram að starfsfólki ASÍ hefur aldrei verið vísað á dyr og um þetta fyrirkomulag hefur ríkt gagnkvæmur skilningur.
Þessi háttur er þekktur í öðrum geirum atvinnulífsins, eins og fjölmiðlum, sem sumir kjósa að taka ekki þátt í samræmdum mælingum á notkun miðlanna þar sem stjórnendur þeirra telja mælingarnar gefa skakka mynd af markmiðum rekstrarins. Það er því óskiljanlegt að starfsfólk ASÍ kjósi á þessum tímapunkti að hnýta í litla hverfisverslun í Reykjavík, vega að hagsmunum starfsfólks og þjónustu við fjölskyldur í stað þess að beina spjótum sínum að þeim sem öllu ráða á dagvörumarkaði.
Stjórnendur og starfsfólk Melabúðarinnar er gríðarlega þakklátt viðskiptavinum fyrir traustið og stuðninginn í gegnum tíðina og mun halda áfram að leggja áherslu á gæði, góða þjónustu og þá einstöku stemningu sem hefur laðað að sér trygga viðskiptavini í áraraðir,“ segir í tilkynningu verslunarinnar.