Hagnaður Nova á örðum ársfjórðungi nam 107,8 milljónum króna í samanburði við 120,9 milljónir árið áður. Á fyrri helmingi árs skilaði fjarskiptafélagið 241 milljón króna hagnaði í samanburði við 280 milljón króna hagnað árið áður.
Tekjur félagsins voru nær óbreyttar á milli ára en rekstrartekjur Nova á fyrri helmingi árs námu 6.425 milljörðum á móti 6,411 milljörðum á sama tímabili í fyrra.
Heildartekjur á öðrum ársfjórðungi voru 3,2 milljarðar og standa í stað milli ára. Þjónustutekjur námu samtals 2,5 milljörðum sem er um 3,6% aukning á milli ára.
„Nú þegar árið er hálfnað er gott að líta yfir stöðuna. Reksturinn er traustur. Heildartekjur eru svipaðar og á síðasta ári en þegar við kíkjum baksviðs sjáum við að Nova heldur áfram að styrkja sig inn í framtíðina, sem er einmitt það sem við stefnum alltaf að. Vörusalan hefur verið að dragast saman í krefjandi umhverfi, sem hefur þó ekki áhrif á rekstrarhagnað. Þjónustutekjurnar aukast á móti og viðskiptavinunum fjölgar,” segir Margrét Tryggvadóttir, skemmtana- og forstjóri Nova.
EBITDA samstæðunnar nam 961 milljón á öðrum ársfjórðungi. samanborið við 973 milljónir á sama tímabili á fyrra ári. EBITDA hlutfallið var 29,8% á fjórðungnum samanborið við 30,3% á fyrra ári.
Handbært fé frá rekstri á fjórðungnum er 536 milljónir, eiginfjárhlutfall var 40,2% í lok fjórðungsins og eigið fé nam tæplega 9,4 milljörðum króna.
Margrét bætir við að fjárfesting í innviðauppbyggingu sé félaginu mikilvæg þar sem öflugir innviðir styrkja samkeppnisstöðu Nova en félagið hefur fjárfest fyrir rúmlega 800 milljónir í innviðauppbyggingu á þessu ári.
„Við sjáum einnig tækifæri í betri nýtingu á opinberum fjármunum m.a. í frekari uppbyggingu flakknets á strjálbýlustu stöðum landsins. Flakknet getur verið alveg sambærilegt við ljósleiðaratengingar og í raun er skynsamlegra að leggjast í þá uppbyggingu, sem er hagkvæmari, gengur mun hraðar fyrir sig og tryggir um leið flakknetssamband á viðkomandi svæðum,” segir Margrét.
„Tæknin er hins vegar ekki markmið í sjálfu sér heldur leið til að einfalda og njóta lífsins, við höldum því áfram að leggja áherslu á geðræktina og fríðindaklúbbinn Fyrir Þig. Við hvöttum m.a. til símalausra samverustunda með Busl-tónleikum og fríum sundferðum í allt sumar. Viðskiptavinir sem njóta lífsins í góðu sambandi eru ánægðir viðskiptavinir og það er það mikilvægasta sem við í Nova eigum. Við horfum með mikilli eftirvæntingu til síðari hluta ársins,” segir Margrét.