Hagnaður Nova á örðum árs­fjórðungi nam 107,8 milljónum króna í saman­burði við 120,9 milljónir árið áður. Á fyrri helmingi árs skilaði fjar­skipta­fé­lagið 241 milljón króna hagnaði í saman­burði við 280 milljón króna hagnað árið áður.

Tekjur fé­lagsins voru nær ó­breyttar á milli ára en rekstrar­tekjur Nova á fyrri helmingi árs námu 6.425 milljörðum á móti 6,411 milljörðum á sama tíma­bili í fyrra.

Heildar­tekjur á öðrum árs­fjórðungi voru 3,2 milljarðar og standa í stað milli ára. Þjónustu­tekjur námu sam­tals 2,5 milljörðum sem er um 3,6% aukning á milli ára.

„Nú þegar árið er hálfnað er gott að líta yfir stöðuna. Reksturinn er traustur. Heildar­tekjur eru svipaðar og á síðasta ári en þegar við kíkjum bak­sviðs sjáum við að Nova heldur á­fram að styrkja sig inn í fram­tíðina, sem er ein­mitt það sem við stefnum alltaf að. Vöru­salan hefur verið að dragast saman í krefjandi um­hverfi, sem hefur þó ekki á­hrif á rekstrar­hagnað. Þjónustu­tekjurnar aukast á móti og við­skipta­vinunum fjölgar,” segir Margrét Tryggva­dóttir, skemmtana- og for­stjóri Nova.

EBITDA sam­stæðunnar nam 961 milljón á öðrum árs­fjórðungi. saman­borið við 973 milljónir á sama tíma­bili á fyrra ári. EBITDA hlut­fallið var 29,8% á fjórðungnum saman­borið við 30,3% á fyrra ári.

Hand­bært fé frá rekstri á fjórðungnum er 536 milljónir, eigin­fjár­hlut­fall var 40,2% í lok fjórðungsins og eigið fé nam tæp­lega 9,4 milljörðum króna.

Margrét bætir við að fjár­festing í inn­viða­upp­byggingu sé fé­laginu mikil­væg þar sem öflugir inn­viðir styrkja sam­keppnis­stöðu Nova en fé­lagið hefur fjár­fest fyrir rúm­lega 800 milljónir í inn­viða­upp­byggingu á þessu ári.

„Við sjáum einnig tæki­færi í betri nýtingu á opin­berum fjár­munum m.a. í frekari upp­byggingu flakk­nets á strjál­býlustu stöðum landsins. Flakk­net getur verið alveg sam­bæri­legt við ljós­leiðara­tengingar og í raun er skyn­sam­legra að leggjast í þá upp­byggingu, sem er hag­kvæmari, gengur mun hraðar fyrir sig og tryggir um leið flakk­nets­sam­band á við­komandi svæðum,” segir Margrét.

„Tæknin er hins vegar ekki mark­mið í sjálfu sér heldur leið til að ein­falda og njóta lífsins, við höldum því á­fram að leggja á­herslu á geð­ræktina og fríðinda­klúbbinn Fyrir Þig. Við hvöttum m.a. til síma­lausra sam­veru­stunda með Busl-tón­leikum og fríum sund­ferðum í allt sumar. Við­skipta­vinir sem njóta lífsins í góðu sam­bandi eru á­nægðir við­skipta­vinir og það er það mikil­vægasta sem við í Nova eigum. Við horfum með mikilli eftir­væntingu til síðari hluta ársins,” segir Margrét.