Hlutabréf snyrtivörurisans Estée Lauder hafa fallið um þriðjung á það sem af er ári og hefur ekki verið lægri í rúmlega þrjú ár.

Sala félagsins á heimamarkaði í Bandaríkjunum hefur dalað og ekki náð sömu hæðum og í heimsfaraldrinum. Aukin samkeppni frá minni snyrtivöruframleiðendum með minni yfirbyggingu og árangursríkar markaðsherferðir á samfélagsmiðlum hefur lagt stein í götu Estée Lauder.

Þá hefur salan einnig verið undir væntingum á öðru mikilvægu markaðssvæði, Kína. Fabrizio Freda, forstjóri snyrtivöruframleiðandans, varaði fyrr á árinu við því að útlit væri fyrir að salan á síðasta fjárhagsári, sem lauk 30. júní sl., myndi lækka um allt að 12%.