Tekjur Icelandic Salmon, móðurfélags Arnarlax, á fjórða ársfjórðungi nam 49,9 milljónum evra, eða um 7,3 milljörðum króna. Það samsvarar 3,3% samdrætti frá sama tímabili ári áður þegar félagið, sem er með umfangsmikla starfsemi á Vestfjörðum, velti 51,6 milljónum evra.
Félagið greindi frá rekstrarniðurstöðu fjórða ársfjórðungs í morgun.
Icelandic Salmon, sem er skráð á íslenska First North-markaðinn, rekur samdráttinn til minni uppskeru en félagið slátraði 6.455 tonnum á fjórða ársfjórðungi samanborið við 7.219 á fjórða ársfjórðungi 2023. Uppskeran var þó meira en á fyrstu níu mánuðum síðasta árs.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (Operational EBIT) á fjórðungnum nam 1,4 milljónum evra, eða um 205 milljónir króna, samanborið við 2,0 milljónir evra á fjórða ársfjórðungi 2024.
Björn Hembre, forstjóri Icelandic Salmon, segir að félaginu hafi tekist að ljúka árinu á jákvæðum nótum. Líffræðileg staðan hafi náð betra jafnvægi eftir krefjandi áskoranir síðasta vetur og félagið hafi styrkt lúsavarnir þess.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141417.width-1160.png)
Félagið segist vinna að því með stjórnvöldum að endurheimta 10.000 tonna rekstrarleyfi í Ísafjarðardjúpi en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála afturkallaði leyfið í október síðastliðnum. Icelandic Salmon rekur afturköllun leyfisins til þess að Matvælastofnun hafi ekki veitt nægilega yfirgripsmikið mat á mögulegri hættu á útbreiðslu fisksjúkdóma og sníkjudýra áður en leyfið var veitt.
Í tilkynningu Icelandic Salmon kemur einnig fram að félagið hafi náð samkomulagi um framlengingu og stækkun á sjálfbærri fjármögnun frá DNB og Danske Bank. Lánssamningurinn var stækkaður um 65 milljónir evra, eða um 9,5 milljarða króna, og er nú alls um 160 milljónir evra.