Tekjur Icelandic Salmon, móðurfélags Arnarlax, á fjórða ársfjórðungi nam 49,9 milljónum evra, eða um 7,3 milljörðum króna. Það samsvarar 3,3% samdrætti frá sama tímabili ári áður þegar félagið, sem er með umfangsmikla starfsemi á Vestfjörðum, velti 51,6 milljónum evra.

Félagið greindi frá rekstrarniðurstöðu fjórða ársfjórðungs í morgun.

Icelandic Salmon, sem er skráð á íslenska First North-markaðinn, rekur samdráttinn til minni uppskeru en félagið slátraði 6.455 tonnum á fjórða ársfjórðungi samanborið við 7.219 á fjórða ársfjórðungi 2023. Uppskeran var þó meira en á fyrstu níu mánuðum síðasta árs.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (Operational EBIT) á fjórðungnum nam 1,4 milljónum evra, eða um 205 milljónir króna, samanborið við 2,0 milljónir evra á fjórða ársfjórðungi 2024.

Björn Hembre, forstjóri Icelandic Salmon, segir að félaginu hafi tekist að ljúka árinu á jákvæðum nótum. Líffræðileg staðan hafi náð betra jafnvægi eftir krefjandi áskoranir síðasta vetur og félagið hafi styrkt lúsavarnir þess.

Úr fjárfestakynningu Icelandic Salmon.

Félagið segist vinna að því með stjórnvöldum að endurheimta 10.000 tonna rekstrarleyfi í Ísafjarðardjúpi en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála afturkallaði leyfið í október síðastliðnum. Icelandic Salmon rekur afturköllun leyfisins til þess að Matvælastofnun hafi ekki veitt nægilega yfirgripsmikið mat á mögulegri hættu á útbreiðslu fisksjúkdóma og sníkjudýra áður en leyfið var veitt.

Í tilkynningu Icelandic Salmon kemur einnig fram að félagið hafi náð samkomulagi um framlengingu og stækkun á sjálfbærri fjármögnun frá DNB og Danske Bank. Lánssamningurinn var stækkaður um 65 milljónir evra, eða um 9,5 milljarða króna, og er nú alls um 160 milljónir evra.