Velta Malbikunarstöðvarinnar Höfða, sem er í eigu Reykjavíkurborgar, dróst saman um 17,8% á milli ára og nam 1.175 milljónum króna árið 2021. Félagið skilaði 14 milljóna hagnaði samanborið við 14 milljóna tap árið áður en afkoma Malbikunarstöðvarinnar var þó talsvert lægri en árin fyrir kórónuveirufaraldurinn.
„Framleiðsla Malbikunarstöðvarinnar Höfða árið 2021 var töluvert minni en gert var ráð fyrir í upphafi árs. Samið var við félagið um tvö stór verkefni í útboðum sem voru boðin út á höfuðborgarsvæðinu. Opinberir verkkaupar drógu saman útgjöld til viðhalds gatna og vega en það hafði áhrif á sölu malbiks og framkvæmdir miðað við árin 2018-2019,“ segir í skýrslu stjórnar í nýbirtum ársreikningi félagsins.
Stjórnin gerir þó ráð fyrir að malbiksframleiðsla aukist aftur á næstu árum miðað við áform opinberra aðila er snúa að framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu.
Á árinu störfuðu 39 starfsmenn að meðaltali hjá félaginu og námu laun og launatengd gjöld samtals 484 milljónum. Eignir Malbikunarstöðvarinnar Höfða námu 1,85 milljörðum í lok síðasta árs og eigið fé var um 1,5 milljarðar.
Malbikunarstöðin Höfði hefur haft afnot af lóðinni við Sævarhöfða 6-10 á grundvelli óskráðs ótímabundins afnotasamnings við Reykjavíkurborg. Félagið keypti á síðasta ári lóð á iðnaðarsvæði við Álfhellu í Hafnarfirði fyrir starfsemi sína.
„Flutningarnir eru hafnir og búist við að þeim ljúki á þessu ári. Flutningar starfseminnar hefur í för með sér kostnað fyrir félagið ásamt því að vera flókið og tímafrek framkvæmd,“ segir í skýrslu stjórar.
Sjá einnig: „Algjör steypa“ að borgin framleiði malbik
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gagnrýndu eignarhald borgarinnar á Malbikunarstöðinni Höfða í ljósi þess að félagið starfi á samkeppnismarkaði. Tillögu Sjálfstæðisflokksins um að félagið yrði sett í söluferli var vísað frá í borgarstjórn í maí síðastliðnum.
Borgarráð samþykkti hins vegar í janúar að láta fjármála- og áhættusvið Reykjavíkurborgar meta kosti og galla þess að selja Malbikunarstöðina Höfða. Borgarstjórnarmeirihlutinn benti þá á að í meirihlutasáttmálanum var lögð áhersla á að leggja Malbikunarstöðinni Höfða fyrst til nýja lóð og kanna í kjölfarið kosti og galla þess að selja fyrirtækið.