Afhendingar nýrra bíla frá framleiðandanum Stellantis drógust saman um 9% á fjórða ársfjórðungi 2024 samkvæmt WSJ. Þá drógust afhendingar í Norður-Ameríku saman um heil 28%.

Stellantis, sem er einnig með vörumerkin Chryler, Fiat og Peugeot, segir að um 115 þúsund færri bílar voru sendir til viðskiptavina í Norður-Ameríku en á sama tíma í fyrra.

Þá hefur fyrirtækið einnig aukið fríðindi til viðskiptavina og reynt að fækka þeim bílum sem sendir eru til bílaumboða. Birgðir fyrirtækisins lækkuðu þar að auki um rúmlega 80 þúsund miðað við lok þriðja ársfjórðungs.

Afhendingar á heimsvísu lækkuðu niður í 1.395.000 eintök og í Evrópu var einnig 6% fækkun milli ára niður í 693 þúsund bíla.