Jamie Dimon, forstjóri JPMorgan spáir samdrætti í bandaríska hagkerfinu á næsta ári. Hann varar við því að niðursveiflan í hagkerfinu gæti ollið því að hlutabréfamarkaðir lækki um 20% til viðbótar, en S&P 500 vísitalan hefur nú þegar lækkað um fjórðung frá áramótum. Financial Times greinir frá.
Dimon sagði, í viðtali við CNBC í gær, að vaxtahækkanir og innrás Rússa í Úkraínu væru helstu ástæður að hagkerfið fari í samdrátt á næsta ári
„Evrópa er nú þegar í samdrætti og ég tel að samdráttur í bandaríska hagkerfinu muni hefjast eftir sex til níu mánuði,“ var haft eftir Dimon í viðtalinu.
Dimon segir að hlutabréfamarkaðir gætu auðveldlega lækkað um 20% til viðbótar. Hann bendir á að næstu 100 punkta vaxtahækkanir muni bíta meira og vera sársaukafyllri en fyrstu 100 punkta vaxtahækkanirnar. Fólk sé ekki vant svo háum vöxtum.
Dimon er ekki sá eini sem spáir samdrætti á næsta ári, meðal málsmetandi manna á Wall Street. Ken Griffin, fjárfestir og forstjóri vogunarsjóðsins Citadel hélt því fram nú á dögunum að samdráttur í hagkerfinu væri óumflýjanlegur.