Landsframleiðsla Rússlands dróst saman um 2,1% í fyrra samkvæmt nýjum tölum rússnesku hagstofunnar samanborið við 5,6% hagvöxt árið 2021. BBC greinir frá.

Nokkrir greinendur segja að niðurstaðan í fyrra hafi komið sér á óvart og útlit sé fyrir að rússneska hagkerfið hafi sloppið vel undan viðskiptaþvingunum vestrænna ríkja í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu fyrir rúmu ári. Í því ljósi má benda á að efnahagsráðuneyti Rússlands gerði um tíma ráð fyrir 12% samdrætti árið 2022.

Sumir hafa þó dregið sannleiksgildi tölfræðarinnar í efa.

Hátt olíu- og gasverð á síðasta ári studdi við rússneska hagkerfið. Samkvæmt nýlegum tölum Seðlabanka Rússlands jókst verðmæti útflutnings í Bandaríkjadölum um 14% á milli áranna 2021 og 2022.

Viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja voru innleiddar í skrefum á síðasta ári, ekki síst í ljósi orkukrísunnar í Evrópu. Þó eru merki um að áhrif þeirra séu byrjuð að koma fram í auknum mæli núna en tekjur rússneska ríkisins af olíu og gasi í janúar síðastliðnum drógust saman um 46% frá janúar 2022.

Fram kemur að samdráttur hafi orðið í iðnframleiðslu og smásölu á síðasta ári en vöxtur var í landbúnaði, byggingargeiranum og hótel- og veitingageiranum.