Samkvæmt árshlutauppgjöri Arion banka gæti fjárhagslegt tap bankans a á mögulegum áhrifum neikvæðrar, endanlegrar dómsniðurstöðu á lánasafn bankans í máli Neytendasamtakanna, numið 14 til 17 milljarða króna.
Um er að ræða hópsmálsókn sem Neytendasamtökin standa fyrir gegn bönkunum en um 2.500 manns taka þátt í málsókninni. Samtökin telja að skilmálar bankanna á óverðtryggðum breytilegum vöxtum hafi ekki verið nægilegar skýrir.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá gerir Landsbankinn ráð fyrir um 21,2 milljarða króna tapi í bráðabirgðamati sínu á meðan Íslandsbanki gerir ráð fyrir um 15 milljarða króna tapi.
Sameiginlegt fjárhagslegt tap kerfislega mikilvægu bankanna (KMB) samkvæmt bráðabirgðamati gæti því numið um 53,2 milljörðum króna.
Arion banki, líkt og Íslandsbanki og Landsbankinn, hefur ekki gert neinar varúðarráðstafanir vegna málanna.
Í árshlutauppgjöri segir að Arion banki byggir þá ákvörðun á óháðu lögfræðilegu mati sem bankinn aflaði sér sem og sýknudómi héraðsdóms í febrúar í fyrra.
Bráðabirgðamat bankanna á mögulegu fjárhagslegu tapi miðast þó við núverandi vaxtaumhverfi.
Í bráðabirgðamati Landsbankans er tekið fram að matið nær ekki til mat á áhrifum á fastvaxtaáhættu bankans ef endanleg dómsniðurstaða verður sú að miða skuli við upphaflega samningsvexti út lánstíma viðkomandi lána.
Slík niðurstaða myndi auka fastvaxtaáhættu bankans verulega og gæti haft veruleg neikvæð fjárhagsleg áhrif á bankann við hækkandi vaxtastig á mörkuðum.
Neytendasamtökin byrjuðu að kvarta til bankanna þriggja í apríl 2020 þar sem óskað var eftir því að bankarnir myndu endurskoða samningsákvæði í húsnæðislánum með breytilegum vöxtum til einstaklinga.
Í lok árs 2021 voru bönkunum þrem birtar sex stefnur frá Neytendasamtökunum. Málin gegn Arion banka og Landsbankanum voru þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur en mál Íslandsbanka í Héraðsdómi Reykjaness.
Von er á niðurstöðu í máli samtakanna gegn Íslandsbanka eftir tæpar tvær vikur en málflutningur fór fram um miðjan mánuð.
Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, sagði í samtali við Dagmál í dag að hann teldi líklegasta niðurstaðan í málinu vera sú að bankinn myndi vinna málið.
„Mér finnst ólíklegt að við töpum þessu máli. Það er ekki líklegt að dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að við megum ekki breyta vöxtunum með nokkrum hætti,” sagði Jón Guðni.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, hefur þó sagt að hann búist við „stórtíðindum“ úr héraðsdómi á næstunni.