Sam­kvæmt árs­hluta­upp­gjöri Arion banka gæti fjár­hags­legt tap bankans a á mögu­legum áhrifum neikvæðrar, endan­legrar dómsniður­stöðu á lána­safn bankans í máli Neyt­enda­sam­takanna, numið 14 til 17 milljarða króna.

Um er að ræða hóps­málsókn sem Neyt­enda­samtökin standa fyrir gegn bönkunum en um 2.500 manns taka þátt í málsókninni. Samtökin telja að skilmálar bankanna á óverð­tryggðum breyti­legum vöxtum hafi ekki verið nægi­legar skýrir.

Líkt og Við­skipta­blaðið hefur greint frá gerir Lands­bankinn ráð fyrir um 21,2 milljarða króna tapi í bráða­birgðamati sínu á meðan Ís­lands­banki gerir ráð fyrir um 15 milljarða króna tapi.

Sam­eigin­legt fjár­hags­legt tap kerfis­lega mikilvægu bankanna (KMB) sam­kvæmt bráða­birgðamati gæti því numið um 53,2 milljörðum króna.

Arion banki, líkt og Ís­lands­banki og Lands­bankinn, hefur ekki gert neinar varúðarráð­stafanir vegna málanna.

Í árs­hluta­upp­gjöri segir að Arion banki byggir þá ákvörðun á óháðu lög­fræði­legu mati sem bankinn aflaði sér sem og sýknu­dómi héraðs­dóms í febrúar í fyrra.

Bráða­birgða­mat bankanna á mögu­legu fjár­hags­legu tapi miðast þó við núverandi vaxta­um­hverfi.

Í bráða­birgðamati Lands­bankans er tekið fram að matið nær ekki til mat á áhrifum á fast­vaxtaáhættu bankans ef endan­leg dómsniður­staða verður sú að miða skuli við upp­haf­lega samnings­vexti út lánstíma viðkomandi lána.

Slík niður­staða myndi auka fast­vaxtaáhættu bankans veru­lega og gæti haft veru­leg neikvæð fjár­hags­leg áhrif á bankann við hækkandi vaxta­stig á mörkuðum.

Neyt­enda­samtökin byrjuðu að kvarta til bankanna þriggja í apríl 2020 þar sem óskað var eftir því að bankarnir myndu endur­skoða samningsákvæði í húsnæðislánum með breyti­legum vöxtum til ein­stak­linga.

Í lok árs 2021 voru bönkunum þrem birtar sex stefnur frá Neyt­enda­samtökunum. Málin gegn Arion banka og Lands­bankanum voru þing­fest í Héraðs­dómi Reykja­víkur en mál Ís­lands­banka í Héraðs­dómi Reykja­ness.

Von er á niður­stöðu í máli sam­takanna gegn Ís­lands­banka eftir tæpar tvær vikur en mál­flutningur fór fram um miðjan mánuð.

Jón Guðni Ómars­son, banka­stjóri Ís­lands­banka, sagði í sam­tali við Dag­mál í dag að hann teldi lík­legasta niður­staðan í málinu vera sú að bankinn myndi vinna málið.

„Mér finnst ólík­legt að við töpum þessu máli. Það er ekki lík­legt að dómstólar komist að þeirri niður­stöðu að við megum ekki breyta vöxtunum með nokkrum hætti,” sagði Jón Guðni.

Breki Karls­son, for­maður Neyt­enda­sam­takanna, hefur þó sagt að hann búist við „stórtíðindum“ úr héraðs­dómi á næstunni.