Innrás Rússlands í Úkraínu mun valda verulegum matarskorti um allan heim sem gæti varað í nokkur ár að mati Sameinuðu þjóðanna að því er segir í frétt BBC.

Antonio Guterres, aðalframkvæmdarstjóri SÞ, segir að stríðið í Úkraínu hafi þegar valdið miklu mataróöryggi fyrir fátækari þjóðir heims vegna hækkandi verðs sem leiða má af stríðinu. Telur hann að mörg lönd muni upplifa hungursneyð á næstunni ef útflutningur Úkraínu nær ekki aftur fyrri hæðum.

Stríðið hefur dregið verulega úr öllum útflutningi Úkraínu sem á tímabili var einn stærsti útflutningsaðili matarolíu, maískorns og hveitis. Hefur heimsframboð dregist verulega saman og verð þ.a.l. hækkað. Samkvæmt upplýsingum SÞ er matavælaverð á heimsvísu 30% hærra í dag en fyrir ári.

Rússland og Úkraína rækta samanlagt um 30% af öllu hveiti í heiminum en fyrir stríð var Úkraína talin brauðkarfa heimsins (e. world‘s bread basket) en landið flutti út 4,5 milljón tonn af landbúnaðarafurðum á mánuði.

"Það er nægur matur í heiminum en við þurfum bregðast við saman. Ef við leysum ekki þetta vandamál í dag, stöndum við frammi fyrir miklum matarskorti á heimsvísu og það á komandi mánuðum," sagði Guterres í ræðu sinni fyrir Sameinuðu þjóðunum á miðvikudag en hann telur að tugir milljóna manna séu að nálgast brúnina þegar það kemur að fæðuöryggi.