Seðlabankinn áætlar að kostnaður af hverri færslu reiðufjár hafi hækkað þannig að samfélagslegt tap sé af notkun reiðufjár. Á meðan hefur kostnaður fyrir samfélagið af hverri greiðslukortafærslu lækkað þó nokkuð milli áranna 2018 og 2021.

Samkvæmt ritinu Kostnaður við smágreiðslumiðlun sem Seðlabankinn gaf nýlega út hefur kostnaður við greiðslumiðlun fyrir samfélagið lækkað síðan 2018 samhliða aukinni hagræðingu í rafrænni greiðslumiðlun og auknum fjölda færslna.

„Með hagræðingu í greiðslumiðlun og fjölgun færslna lækkaði samfélagskostnaður á hverja færslu, óháð tegund greiðslumiðla og greiðsluþjónustu, að meðaltali um 12 kr. frá árinu 2018 eða úr 36 kr. í 25 kr. á árinu 2021,“ segir í riti Seðlabankans.

Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika, hefur hins vegar bent á að samkvæmt áætlun Seðlabankans hafi hlutfall greiðslna með snjalltækjum í viðskiptum hækkað úr 4,1% árið 2018 í 38,5% árið 2021. Á sama tímabili hefði hlutfall viðskipta þar sem greitt er með reiðufé lækkað úr 6,9% árið 2018 í 1,8% árið 2021.

Aukinn greiðsluhraði með aukinni notkun snjalltækja við greiðslumiðlun á þátt í að lækka þennan kostnað samkvæmt riti Seðlabankans. „Það er kostnaðarsamt að reka innviði fyrir reiðufé þegar fáir nota það til greiðslu á vörum og þjónustu,“ segir í ritinu.