Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir merkilegt að flokkarnir í stjórnarandstöðunni hafi ekki náð sér betur á strik á síðustu árum í ljósi þriggja flokka ríkisstjórnarsamstarfs.
„Maður hefði haldið að þetta væri óskastjórn fyrir stjórnarandstæðinga að fást við vegna þess að þetta er þriggja flokka stjórn. Saga íslenskra stjórnmála er sú að slíkar stjórnir hafa átt erfitt með að lifa,“ segir Bjarni í nýjasta hlaðvarpsþætti Chat after Dark.
Bjarni var spurður hvort hann hafi áhyggjur af Samfylkingunni undir stjórn Kristrúnar Frostadóttur. Samfylkingin mældist með 21,1% fylgi samkvæmt nýjustu könnun Gallup og hefur það ekki verið meira í rúman áratug. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 24,1% fylgi í sömu könnun.
„Samfylkingin í 20% er enginn risaflokkur. Hann var alltaf 30% flokkur, meira að segja 2009, og hefur verið skugginn af sjálfum sér í mjög langan tíma. Það er ekki nema ár síðan að flokkurinn var í kosningum og náði ekki 10% en hafði þar áður undir Loga [Einarssyni] verið að mælast stundum í 18%-19%, jafnvel 20%.“
Hann bendir á að Píratar hafi árið 2016 mælst með um 35% fylgi í nokkra mánuði og að Vinstri græn í stjórnarandstöðu hafi á sínum tíma mælst með yfir 30% fylgi.
„Að Samfylkingin sé núna tímabundið í 20%, mér finnst það engin stórtíðindi. Mér finnst eiginlega merkilegt að það hefur enginn flokkur, á móti þessari þriggja flokka stjórn, mælst í 20% í langan tíma. Það er eiginlega ótrúlegt.“
Bjarni bætir einnig við að langt sé í næstu þingkosningar og að aðstæður breytist hratt í stjórnmálum.
„Kristrún fær ágætis byrjun en ég þekki það bara á eigin skinni og ágætlega af minni reynslu að vika er langur tími í pólitík. Þetta er yfirleitt þannig að sólin skín í einn dag og svo koma margir rigningardagar. Í augnablikinu virðist sólin skína á hana, það er bara í fínu lagi. En það er mjög langt þangað til það verður kosið og margt á eftir að gerast.“
Bjarni ræðir um fylgi Samfylkingarinnar frá 1:47:14-1:50:40.