Samherji fiskeldi ehf., dótturfélag Samherja hf., hefur lokið fjármögnun fyrsta áfanga Eldisgarðs, nýrrar landeldisstöðvar við Reykjanesvirkjun, með útgáfu nýs hlutafjár og sambankaláni. Stefnt er að því að taka stöðina í notkun á fyrsta ársfjórðungi 2027.

Fjármögnun fyrsta áfanga nemur 235 milljónum evra, jafnvirði 34 milljarða króna, að því er segir í fréttatilkynningu á vef Samherja.

Stækkuðu hlutafjárútgáfuna

Fjármögnun fyrsta áfanga Eldisgarðs er tvíþætt. Hún felst annars vegar í útgáfu nýs hlutafjár í Samherja fiskeldi ehf. upp á 125 milljónir evra, eða um 18 milljörðum króna, og hins vegar sambankaláni upp á 110 milljónir evra, eða um 16 milljarða króna.

Samherji hf., sem er í dag eigandi 99% hlutafjár í Samherja fiskeldi, mun leggja til um helming hlutafjáraukningarinnar á móti fjárfestingu frá hópi fjárfesta.

Þar er um að ræða AF3 slhf., framtakssjóð í rekstri Alfa Framtaks, CCap, hollenskt fjárfestingarfélag í fjölskyldueigu, og fjárfestingarfélagið Snæból ehf., í eigu hjónanna Finns R. Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur.

Sambankalán uppá 110 milljónir evra er leitt af Íslandsbanka með þátttöku Landsbankans, Nordea og Eksfin – Eksportfinansiering i Noregi.

„Vegna mikils áhuga á verkefninu var ákveðið að auka umfang hlutafjárútgáfunnar og leggja þá grunn að næsta áfanga í uppbyggingu landeldisstöðvarinnar. Bæði innlendir og erlendir fjárfestar taka þátt í þessari stækkun útgáfunnar og er ráðgert að henni ljúki fyrir lok maí næstkomandi,“ segir í tilkynningunni.

Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og Arctic Securities í Osló voru ráðgjafar Samherja fiskeldis í fjármögnunarferlinu.

„Það er afar ánægjulegt að fjármögnun nýju landeldisstöðvarinnar, Eldisgarðs, sé í höfn. Innlendir og erlendir bankar og fjárfestar sýna okkur mikið traust með sinni þátttöku. Við settum okkur skýrt markmið strax í upphafi að fá utanaðkomandi fjárfesta að þessu verkefni og það hefur nú náðst. Við væntum þess að landeldi á Íslandi skili umtalsverðri hagsæld fyrir þjóðarbúið, rétt eins og íslenskur sjávarútvegur hefur gert undanfarna áratugi,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og stjórnarformaður Samherja fiskeldis.

„Eldisgarður byggir á reynslu okkar af landeldi í Öxarfirði. Frá árinu 2023 höfum við fjárfest í stöðinni í Öxarfirði fyrir rúmlega fjóra milljarða króna. Sú fjárfesting fólst í stækkun og innleiðingu á nýrri tækni sem verður notuð í Eldisgarði. Árangurinn af þessum breytingum hefur ekki látið á sér standa og styrkir væntingar okkar um rekstur nýju landeldisstöðvarinnar. Öflugt teymi hefur í langan tíma unnið að undirbúningi þessa stóra og fjárfreka verkefnis og lagt grunninn að uppbyggingu landeldis í fremstu röð á heimsvísu. Ég er afskaplega stoltur af starfsfólki Samherja á þessum tímamótum og við teljum okkur vel í stakk búin að takast á við margfalt stærra landeldi.“

Um 100 manns koma til með að starfa í Eldisgarði og verður meirihluti þeirra þekkingarstörf, þar sem rík áhersla verður lögð á sjálfvirkni í stöðinni, auk þess sem stöðin nýtur fulltingis þeirra 120 starfsmanna og sérfræðinga í sem dag starfa hjá Samherja fiskeldi.

Jarðvegsframkvæmdir við Eldisgarð hófust í október 2024. Landeldisstöðin verður staðsett í auðlindagarði HS Orku við Reykjanesvirkjun með aðgang að 100% endurnýjanlegri orku frá virkjuninni.

Eldisgarður mun samanstanda af seiðastöð, áframeldisbyggingu með þremur áframeldisstöðvum og sláturhúsi.

Teikning af Eldisgarði, tekin af vef Samherja.
Teikning af Eldisgarði, tekin af vef Samherja.

Stöðin verður byggð í þremur áföngum. Eftir fyrsta áfanga mun hún framleiða 10.000 tonn af slægðum laxi og mun fullbyggð ná framleiðsluafköstum upp á 30.000 tonn á ári. Í framleiðslunni munu einnig falla til hliðarafurðir sem til stendur að nýta til frekari verðmætasköpunar innan auðlindagarðs HS Orku.

Samherji fiskeldi ehf. hefur stundað landeldi á bleikju og laxi í tvo áratugi. Fyrirtækið er í dag stærsti bleikjuframleiðandi í heimi með um 30% markaðshlutdeild í bleikju. Frá árinu 2002 hefur Samherji fiskeldi framleitt meira en 60.000 slægð tonn af laxi og bleikju. Á síðustu árum hefur verið ráðist í umfangsmikla stækkun á núverandi landeldisstöðvum félagsins og hafa þær í dag árlega framleiðslugetu upp á 6.000 slægð tonn.

„Ég er afar stoltur af okkar starfsfólki sem hefur gert þennan árangur mögulegan með sinni reynslu og sérfræðiþekkingu. Samtímis er ég hrærður yfir þeim áhuga sem fjárfestar sýna Eldisgarði. Um er að ræða risavaxið verkefni sem mun hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið á Reykjanesi. Við erum hreykin af því að skapa ný þekkingarstörf á svæðinu með umhverfisvænni framleiðslu á hágæða próteini,“ segir Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri Samherja fiskeldis.