Skóflustunga að fyrsta áfanga landeldisstöðvar Samherja fiskeldis á Reykjanesi verður tekin 15. nóvember. Kostnaður við fyrsta áfangann er um 35 milljarðar króna en fullbúin mun landeldisstöðin á Reykjanesi kosta um 95 milljarða króna.
Þetta kom fram í erindi Baldvins Þorsteinssonar, stjórnarformanns Samherja, á Sjávarútvegsdeginum.
Baldvin sagði uppbyggingu landeldisstöðvarinnar vera stærsta einstaka verkefni Samherja á komandi árum.
„Við sjáum að viðskiptavinir okkar vilja fjölbreytt vöruframboð og laxinn er orðinn stærsta varan í flestum löndum. Við viljum og teljum nauðsynlegt að bjóða þeim að kaupa lax, sem er lykillinn í áframhaldandi uppbyggingu félagsins.“
Samherji fiskeldi ehf., dótturfélag Samherja, að byggja upp allt að 40.000 tonna landeldi í Auðlindagarðinum við Reykjanesvirkjun í þremur áföngum næsta áratuginn.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði í samtali við Viðskiptablaðið fyrir tveimur árum að ef fyrsti áfangi verkefnisins gengur vel þá verði annaðhvort leitað að nýjum fjárfestum til að fara í áfanga tvö og þrjú eða félagið skráð á hlutabréfamarkað.
„Flest fiskeldisfyrirtæki í heiminum eru á hlutabréfamarkaði og ástæðan fyrir því er að þetta er grein sem krefst mikils fjármagns. Það er mjög kostnaðarsamt að koma fiskeldi af stað því gríðarlegt fjármagn er bundið í lífmassanum á hverjum tíma,“ sagði Þorsteinn Már.
Ráðstafa öllum hagnaði í fjárfestingar
Í ofangreindu erindi Baldvins kom fram að Samherji Ísland og Samherji fiskeldi hafi á síðustu fimm árum varið meira en 100% hagnaðar í fjárfestingar beint í rekstri félaganna, þ.e. í nýjum skipum, vinnsluhúsum og tækjabúnaði. Árið 2020, þegar Samherji vígði nýtt vinnsluhús á Dalvík, fór hlutfallið upp í 145%.
Fjárfestingar Samherja í rekstrinum, þ.e. í skipum, vinnsluhúsum og tækjabúnaði, nema alls 31,8 milljörðum króna á síðustu fimm árum á verðlagi hvers árs.
„Samherji hefur fjárfest fyrir hærri fjárhæðir en hagnaður félagsins hefur verið. Þetta hefur verið gert til að framleiða verðmætari afurðir í framtíðinni. Ef við lítum á síðustu fimm árin, var erfiðleikum háð að fjárfesta á meðan heimsfaraldurinn geisaði. Við munum halda áfram á sömu braut á komandi árum,“ sagði Baldvin í erindi sínu sem fjallað er um á vef Samherja.
Baldvin sagði að stöðugar fjárfestingar á undanförnum árum hefðu skapað Samherja visst samkeppnisforskot.