Samherji hf. hagnaðist um 17,8 milljarðar króna í fyrra samanborið við 7,8 milljarða árið 2020. Breytingin á milli ára má einkum rekja til 12 milljarða sölu á hlutabréfum í Síldarvinnslunni sem var skráð á markað í maí 2021. Söluhagnaður og hlutdeild Samherja í afkomu Síldarvinnslunnar nam 9,7 milljörðum í fyrra. Samherji segist á heimasíðu sinni ekki ætla að greiða út arð þriðja árið í röð.
„Af einstökum þáttum er skráning Síldarvinnslunnar á almennan markað mikilvæg. Við höfum verið hluthafar þar frá aldamótum og stigum nú það skref að minnka hlut okkar eins og fleiri hluthafar,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Hann bendir á að 6.500 nýir hluthafar bættust í hluthafahóp Síldarvinnslunnar sem og lífeyrissjóðir. „Þannig varð stór hluti þjóðarinnar þátttakandi í þessari mikilvægu atvinnugrein á fáeinum dögum. Það er afar ánægjulegt og felur í sér mikið traust fyrir þau sem hafa byggt félagið upp.“
Hagnaður af starfsemi Samherja hf. eftir skatta nam 5,5 milljörðum króna en árið á undan var hagnaðurinn 4,5 milljarðar króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir breyttist lítillega á milli ára og nam 9 milljörðum króna. Seldar afurðir Samherja voru 52,8 milljarðar og að meðtöldum öðrum rekstrartekjum námu rekstrartekjur alls 56,7 milljörðum króna.
Fjöldi ársverka breyttist lítillega og var 807 talsins en heildarlaunagreiðslur námu samtals 10,5 milljörðum króna og hækkuðu um tæplega 10% milli ára.
Eignir í árslok námu 128 milljörðum króna og eigið fé var í árslok 94,3 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar í árslok var því 73,6%, miðað við 72% árið á undan.
Allt að 60 milljarðar verði settir í fiskeldi
Viðskiptablaðið í maí frá 3,5 milljarða hlutafjáraukningu Samherja fiskeldis sem verður nýtt til uppbyggingar tilraunaverkefnis í Öxarfirði, sem og í hönnun og framkvæmdir við 40 þúsund tonna fiskeldi í Auðlindagarðinum við Reykjanesvirkjun.
Sjá einnig: Milljarða hlutafjáraukning
Í ræðu Þorsteins Más á aðalfundi Samherja, sem haldinn var á Dalvík á þriðjudaginn, kom fram að miklar fjárfestingar væru fyrirhugaðar í fiskeldi á komandi árum eða allt að 60 milljarðar króna.
„Við hjá Samherja höfum mikla trú á landeldi en öll uppbygging er gríðarlega fjárfrek. Þess vegna skiptir höfuðmáli að félagið sé fjárhagslega öflugt nú sem áður. Ársreikningur samstæðunnar sýnir að svo er. Aðalfundur félagsins ákvað að greiða ekki arð og beina fjárfestingarstyrk félagsins inn í ný verkefni á sviði sjávarútvegsins.“
Ekkert gefi tilefni til að stimpla starfsmenn sem sakborninga
Þorsteinn Már kom einnig inn á rannsókn á dótturfélögum Samherja í Namibíu. Hann segir að engir starfsmenn á vegum fyrirtækisins hafi verið ákærðir, ekki hafi verið óskað framsals á neinum starfsmanni þeirra „og í raun erum við ekki aðilar að refsimálinu sem rekið er gegn aðilum í Namibíu“.
„Þeir hafa hins vegar setið í fangelsi í tvö og hálft ár án dóms. Rannsókn hér á landi hefur einnig staðið yfir í tvö og hálft ár án þess að nokkuð hafi komið fram sem gefur tilefni til að stimpla einstaka starfsmenn Samherja hf. sakborninga.“
Hann segir Samherja hafa muni halda áfram að verja sakleysi sinna starfsmanna og segist sannfærður um að þeir verði hreinsaðir að öllum ásökunum þegar upp er staðið.
„Í þessu sambandi er ánægjulegt að geta undirstrikað að samstarfsaðilar okkar um allan heim hafa haldið tryggð við okkur,“ sagði Þorsteinn Már.