Hagnaður af rekstri sam­stæðu út­gerðar­fé­lagsins Sam­herja, þegar tekið hefur verið til­lit til af­komu hlut­deildar­fé­laga og fjár­magns­liða, nam 8,8 milljörðum króna eftir skatta á síðasta ári.

Sam­kvæmt árs­upp­gjöri 2022 var hagnaðurinn um 14,3 milljarðar króna en Sam­herji segir að ef miðað er við upp­gjörs­mynt fé­lagsins, sem er evra, sé hagnaður af rekstrinum nær ó­breyttur.

Í árs­upp­gjörinu sem aðal­fundur sam­þykkti á þriðju­daginn segir að tals­verðar breytingar hafi verið gerðar á efna­hags­reikningi Sam­herja hf. á undan­förnum árum en 2023 var fyrsta heila rekstrar­árið þar sem starf­semi sam­stæðunnar spannar einungis veiðar, vinnslu, land­eldi og sölu sjávar­af­urða.

Á aðal­fundinum var tekin á­kvörðun um greiðslu arðs til hlut­hafa sem nemur 9% af hagnaði ársins.

Sam­herji seldi af­urðir fyrir 62,5 milljarða króna á árinu og jukust sölu­tekjur vegna af­urða um 10% frá árinu á undan.

Hagnaður fyrir af­skriftir og fjár­magns­liði (EBITDA) nam 11,1 milljarði króna og jókst um 6,7% frá árinu á undan í upp­gjörs­mynt fé­lagsins.

„Tekjur af á­hrifum hlut­deildar­fé­laga námu rúm­lega 3 milljörðum króna. Tekjur vegna hlut­deildar­fé­laga lækka milli ára sem skýrist af tekju­færslu á árinu 2022 vegna breytinga á eignar­hlutum í hlut­deildar­fé­lögum það ár,“ segir í til­kynningu á vef Sam­herja.

Eignir um 110 milljarðar

Eignir Sam­herja í árs­lok 2023 námu 109,7 milljörðum króna og eigið fé var 80 milljarðar króna. Eigin­fjár­hlut­fall sam­stæðunnar í árs­lok var 72,9% en var 74% í árs­lok 2022.

„Eigin­fjár­hlut­fall hefur haldist hátt undan­farin ár sem endur­speglar traustan efna­hag fé­lagsins. Á árinu 2023 voru að meðal­tali 722 árs­verk hjá sam­stæðunni en þau voru 686 árið 2022. Launa­greiðslur námu sam­tals 9,4 milljörðum króna.“

Rétt er að taka fram að framan­greindar fjár­hæðir í rekstrar­reikningi eru um­reiknaðar úr evrum í ís­lenskar krónur á meðal­gengi ársins 2023 og upp­hæðir í efna­hags­reikningi á loka­gengi ársins.

„Rekstur Sam­herja gekk vel á síðasta ári og efna­hagur fé­lagsins er sterkur, eins og árs­reikningurinn sýnir glögg­lega. Á árinu stóðum við frammi fyrir ýmsum á­skorunum og á starfs­fólk fé­lagsins hrós skilið fyrir að hafa mætt þeim með út­sjónar­semi og dugnaði. Sam­herji selur nánast allar sínar af­urðir á er­lendum mörkuðum og þar hafa vextir hækkað í kjöl­far aukinnar verð­bólgu. Þá hafa stríðs­á­tök haft mikil á­hrif á al­þjóða­við­skipti. Við slíkar að­stæður sanna traust við­skipta­sam­bönd og öflug sölu­net mikil­vægi sitt,“ segir Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja hf.

Sam­kvæmt Sam­herja var árið 2023 gott ár í veiðum, vinnslu, land­eldi og sölu af­urða.

Skýra má eigin­legan sam­drátt í hagnaði fé­lagsins milli ára annars vegar af á­hrifum skiptingar fé­lagsins á árinu 2022 á efna­hag þess og hins vegar af því hvernig eignar­hlutur fé­lagsins í Síldar­vinnslunni hf. er bók­færður.

Stærsta fjár­festing sem fé­lagið réðst í á árinu fólst í stækkun land­eldis­stöðvarinnar Silfur­stjörnunnar í Öxar­firði á vegum dóttur­fé­lagsins Sam­herja fisk­eldis ehf. Fjár­festing vegna stækkunarinnar nam um fjórum milljörðum króna. Í Silfur­stjörnunni verða fram­leidd um þrjú þúsund tonn af laxi á landi. Sú þekking og reynsla sem hefur byggst upp við rekstur stöðvarinnar mun nýtast í fyrir­hugaðri land­eldis­stöð Sam­herja fisk­eldis á Reykja­nesi.

„Til að bregðast við skertum afla­heimildum í þorski á undan­förnum árum höfum við lagt aukna á­herslu á vinnslu af­urða úr ýsu og ufsa með góðum árangri.

Náttúru­öflin minntu ræki­lega á sig á síðari hluta ársins þegar jarð­hræringar hófust á Reykja­nesi sem leiddu til þess að Grind­víkingar þurftu að yfir­gefa heimili sín. Þessi at­burða­rás hafði eðli­lega bæði bein og ó­bein á­hrif á starf­semi Sam­herja fisk­eldis ehf.

Á árinu 2023 fögnuðum við 40 ára af­mæli Sam­herja í nú­verandi mynd og ég get ekki annað en verið bjart­sýnn á fram­tíðina,“ segir Þor­steinn Már.

Á vef Sam­herja segir að stærsta fjár­festingin sem fé­lagið réðst í á árinu fólst í stækkun land­eldis­stöðvarinnar Silfur­stjörnunnar í Öxar­firði á vegum dóttur­fé­lagsins Sam­herja fisk­eldis ehf.

Fjár­festing vegna stækkunarinnar nam um fjórum milljörðum króna en þar verða fram­leidd um þrjú þúsund tonn af laxi á landi.

„Hjá Sam­herja hefur verið unnið eftir þeirri að­ferða­fræði að ný­sköpun og fjár­festing sé for­senda þess að fyrir­tækið geti mætt kröfum við­skipta­vina og þannig staðið sig í al­þjóð­legri sam­keppni. Þess vegna hefur verið lögð rík á­hersla á að endur­nýja skipa- og tækja­kost reglu­lega í því skyni að efla sam­keppnis­hæfni fyrir­tækisins. Af­koma síðustu ára sýnir að þessi stefnu­mörkun hefur skilað góðum árangri. Far­sæll rekstur er hins vegar fyrst og fremst öflugu starfs­fólki fé­lagsins að þakka sem hefur leyst fram­úr­skarandi vel úr krefjandi verk­efnum á sviði veiða, vinnslu, sölu og af­hendingar af­urða á markaði fé­lagsins,“ segir Bald­vin Þor­steins­son, stjórnar­for­maður Sam­herja.