Samherji Holding ehf. hagnaðist um 53,7 milljónir evra á árinu 2021, eða sem nemur 7,9 milljörðum króna á gengi dagsins, samkvæmt ársreikningi sem samþykktur var á aðalfundi félagsins í gær. Til samanburðar hagnaðist félagið um 27,4 milljónir evra árið 2020. Þetta kemur fram á heimasíðu Samherja.

Tekjur samstæðu Samherja Holding af seldum vörum jukust um 6% á milli ára og námu 327,7 milljónum evra, eða um 48,5 milljörðum króna, í fyrra.

Eignir samstæðunnar voru bókfærðar á 645,2 milljónir evra í lok árs 2021, eða sem nemur 95,4 milljörðum króna á gengi dagsins, og eigið fé nam 439 milljónum evra, eða um 65 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 68%.

Helstu eignir Samherja Holding eru fyrirtæki á sviði veiða, vinnslu og sölu sjávarafurða í Evrópu og Norður-Ameríku en mikill meirihluti eigna félagsins er erlendis. Þá hefur Samherji Holding einnig fjárfest í flutningastarfsemi og er stærsti hluthafinn í Eimskipi.

„Á árinu 2021 voru fyrirtæki í samstæðu Samherja Holding ehf. enn að glíma við áskoranir vegna heimsfaraldursins sem kölluðu á tímabundnar breytingar á daglegri starfsemi, líkt og árið á undan. Þurftu menn að leggja mikið á sig vegna sóttvarnar- og ferðatakmarkana og er ástæða til nefna sérstaklega áhafnir skipa í því samhengi. Starfsfólkinu tókst hins vegar að aðlaga sig hratt og vel að þessum breytingum, eins og uppgjörið sýnir,” segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja Holding.

Það má því fullyrða að góð afkoma sé fyrst og fremst öflugu starfsfólki að þakka. Uppgjörið sýnir traustan rekstur hjá Samherja Holding ehf., sem er ánægjulegt. Efnahags- og lausafjárstaðan er sterk og fjármögnun er tryggð til langs tíma

Á áðurnefndum aðalfundi Samherja Holding ehf. fór fram stjórnarkjör í félaginu og voru Eiríkur S. Jóhannsson, Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Kristján Vilhelmsson, Óskar Magnússon og Þorsteinn Már Baldvinsson kjörin í stjórn. Er stjórn félagsins því óbreytt frá síðasta aðalfundi.

Samherji hf. og Samherji Holding voru aðskilin árið 2018 og þá var eignarhald á Samherja hf. fært til barna aðaleigenda félagsins á síðasta ári en héldu eignarhaldi yfir Samherja Holding.