Svens ehf., rekstraraðili tólf nikótínpúðaverslana, gagnrýnir harðlega frumvarpsdrög fjármálaráðherra sem felur m.a. í sér að leggja á sérstakt nikótíngjald. Svens segist ekki setja sig á móti skattlagningu á nikótínvörur, sérstaklega ef lýðheilsusjónarmið eru látin ráða för.

„Því miður er því ekki þannig farið í þessu frumvarpi. Forsendur þess eru að mörgu leyti rangar og ummæli í greinargerð afvegaleiðandi,“ segir í umsögn Svens sem framkvæmdastjórinn Ragnar Orri Benediktsson skrifar undir.

„Annað hvort eru frumvarpsdrögin samin af vankunnáttu eða til að villuleiða upptekna alþingismenn sem eru með hugann við komandi kosningar þessa dagana.“

75-100% hækkun á útsöluverði

Samkvæmt frumvarpsdrögunum stendur til að leggja á 30 króna gjald á hvert gramm af heildarþyngd nikótínvara. Svens segir að það feli í sér að meirihluti nikótínpúðadósa (með um tuttugu púða) yrðu skattlagðar á bilinu 420-600 krónur, sem hafi í för með sér 75% - 100% hækkun á útsöluverði.

Til samanburðar sé skattur af sígarettum 600 krónur á pakka sem inniheldur 20 sígarettur.

„Niðurstaðan verður því sú að dós með 20 nikótínpúðum og sígarettupakki með 20 sígarettum verður á svipuðu verði út úr búð.“

Viðskiptablaðið fjallaði í síðustu viku ítarlega um áform fjármálaráðherra að leggja á sérstakt nikótíngjald. Fjár­mála­ráðu­neytið á­ætlar að tekjur ríkis­sjóðs af á­formuðu gjaldi á nikó­tín­vörur verði um 4 milljarðar króna á ári.

Neyslustýring frá nikótínpúðum til rafrettna og tóbaks

Frumvarpsdrögin fela einnig í sér að lagt verði á 60 króna gjald á hvern millílítra af vökva í einnota rafrettum og vökva til áfyllingar á rafrettum. Svens bendir á að með því yrði 2 millílítra einnota rafretta, sem tryggi um 800 „smóka", skattlögð um 120 krónur sem myndi leiða til 17% hækkun á verði.

Svens segir að verði frumvarpsdrögin að lögum muni löggjafinn gera tóbak aftur samkeppnishæft á nikótínmarkaðnum og veita rafrettum umtalsvert samkeppnislegt forskot.

„Staðreyndin er sú að með þessu frumvarpi mun eiga sér stað tilflutningur á neyslu á nikótíni frá nikótínpúðum yfir í rafrettur og tóbak. Það getur ekki verið í samræmi við lýðheilsusjónarmið.“

Svens telur að ef þessar álögur eigi að ganga í gegn og löggjafinn vilji á sama tíma horfa til lýðheilsusjónarmiða, þá hljóti skattur á sígarettur, rafrettur og annað tóbak að vera margfaldaður samhliða.

Sé lýðheilsusjónarmið helsta markmiðið með hinum áformuðu álögum þá hljóti löggjafinn jafnframt að byrja á að flokka nikótínvörur í einhverri röð eftir skaðsemi.

Það sé óumdeilt að inntaka rafrettna sé í gegnum lungu og að rafrettur innihaldi þúsundir efna og efnasambönd sem aldrei hafa verið rannsökuð auk þess sem lítið sé vitað um skaðsemi þeirra. „Allt efnaáreiti á lungun er skaðvænlegt.“

Aftur á móti séu nikótínpúðar samansettir einungis af efnum sem samþykkt eru til matvælaframleiðslu og hreinu nikótíni.

Svens bendir á að í Svíþjóð, sem er lýst sem því landi sem hafi mestu reynsluna af nikótínneyslu fólks í vör (þ.e.a.s. snus með tóbaki og nikótínpúðum), beri nikótínpúðadós skatt upp á 40 íslenskar krónur.

Til samanburðar beri 2 ml. rafrettur í Svíþjóð álögur upp á 52-104 íslenskar krónur en það fari eftir styrkleika nikótíns (efra þrepið, 104 krónur, er sá styrkur sem nánast eingöngu er seldur á Íslandi). Þá sé pakki af sígarettum um 800 íslenskar krónur, sem er fastur og söluverðstengdur skattur.

„Yfirvöld í Svíþjóð hafa tekið upplýsta ákvörðun um að skattleggja nikótínpúða minnst af þeim vörum sem hér eru taldar upp og innihalda nikótín.“

Segja fjórar rangfærslur í greinargerðinni

Svens dregur í umsögninni fram eftirfarandi fjögur dæmi um rangfærslur sem verslunareigandinn segir að finna megi í greinargerð frumvarpsdraganna og séu jafnframt forsenda frumvarpsins:

Í fyrsta lagi: Þá er vísað til 4 ml. einnota rafrettna, sem hefur verið ólöglegt að flytja inn til landsins síðan í desember í fyrra. Sá samanburður hefur því enga þýðingu.

Í öðru lagi: Segir í greinargerðinni að til að setja gjaldtökuna í samhengi myndi 100 ml. áfyllingarvökvi vegna rafrettna bera gjald að fjárhæð kr. 6.000. Þessi mælikvarði til samanburðar á ekki rétt á sér og er óraunhæfur, m.a. vegna þess að ólöglegt er að selja rafrettuvökva í stærri einingum en 10 ml. Í 2 ml. einnota rafrettum eru 800 innsog eða „smókar“. Í 100 ml. af nikótínvökva eru því u.þ.b. 40.000 innsog eða „smókar“. Þessi samanburður á álögur á nikótínpúða og rafrettur stenst því ekki og er ekki til þess fallið að vera til upplýsinga. Þvert á móti virðist þetta vera sett fram í þeim tilgangi að rugla umræðuna.

Í þriðja lagi: Er lagt út frá því að Noregur hafi bannað að selja nikótínpúða án tóbaks. Í því samhengi er ósagt látið að Noregur leyfir nikótínpúða með örlitlu tóbaki. 16% Norðmanna nota púða með nikótíni undir vör skv. opinberum tölum fyrir 2023. Markaður fyrir þessa vöru er því til í Noregi öfugt við það sem mætti álykta af ummælum í greinargerðinni.

Í fjórða lagi: Er því haldið fram að ungt fólk noti nikótínpúða í auknum mæli og notkun rafrettna hjá sama aldurshópi (18-34 ára) hafi staðið í stað. Þetta kemur ekki að neinu leyti heim og saman við markaðsrannsóknir sem Svens hefur látið markaðsrannsóknarfyrirtækið Prósent gera á liðnum árum og vikið verður að hér að neðan.

Auki líklega notkun rafrettna í yngsta hópnum enn meir

Í umsögninni er greint frá niðurstöðum fimm kannana sem markaðsrannsóknarfyrirtækið Prósent hefur gert fyrir Svens frá lokum árs 2020 til sumars 2024.

Um 40% Íslendinga segjast nota nikótín, sem er sami fjöldi í dag og fyrir fjórum árum. Um 16% nota nikótínpúða, samanborið við 12% fyrir fjórum árum. Þá hefur fjöldi þeirra sem nota rafrettur aukist úr 5% í 10% á þessu tímabili.

Niðurstöður kannananna gefa til kynna að jafn margir 18-24 ára nota nikótínpúða og fyrir fjórum árum. Í dag noti hins vegar sexfalt fleiri 18-24 ára rafrettur en fyrir fjórum árum.

Þá hafi hlutfall fullorðinna sem reykja tóbak daglega farið úr 9,4% árið 2017 niður í 5,7% árið 2023. Notkun íslensks tóbaks í vör hafi sömuleiðis farið úr 5,1% árið 2019 niður í 1,2% árið 2023.

„Niðurstaða þessara kannanna er alveg skýr þess efnis að engin bylgja er í aukningu á notkun nikótínpúðum hérlendis á meðal ungs fólks, öfugt við það sem heyrist oft í opinberri umræðu,“ segir í umsögn Svens.

„Því miður er það hins vegar svo að í yngsta hópnum er gríðarleg aukning í notkun rafrettna. Verði frumvarpið að lögum er ljóst að stefna stjórnvalda er í raun að auka þá neyslu enn meir. Þingmenn verða að svara þeirri spurningu hvort það sé virkilega eðlilegt markmið út frá sjónarmiðum um lýðheilsu.“

Einn starfsmaður HMS geti varla sinnt öllu eftirliti

Samhliða breytingum áformuðum lagabreytingum telur Svens að sé löggjafanum alvara með lýðheilsusjónarmiðum, þá hljóti eftirlit með innflutningi og sölu á níkótínvörum að verða stóreflt og þá að hluta til fjármagnað með skattlagningunni.

„Að láta aðeins einn starfsmann HMS sjá um allt eftirlit í landinu með þessum vörum gefur auga leið að er langt frá því að vera nægjanlegt. Það þarf ekki að skoða margar verslanir eða skyndibitastaði, t.d. í miðbænum, til að sjá að reglur eru margbrotnar við sölu á þessum vörum með því að vera með þær sýnilegar.

Ef lögin eru ekki virt í því hvernig ætli skilríkjaeftirlit sé þá? Stjórnvöld hljóta að þurfa að axla sína ábyrgð á þessu.“