Nýr kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins (SA) við VR, LÍV og samflot iðnaðar- og tæknifólks var undirritaður í Karphúsinu í hádeginu. Samningurinn gildir til 31. janúar 2024. Sjá má kynningu SA um samninginn hér.

Nýi kjarasamningurinn felur í sér 6,75% almenna launahækkun sem er afturvirk frá 1. nóvember síðastliðnum auk þess sem hagvaxtarauka er flýtt. Desember uppbót verður 103 þúsund krónur og orlofsuppbót 56 þúsund krónur.

„Samningar Samtaka atvinnulífsins við SGS annars vegar og VR, LÍV og samflot iðnaðarmanna hins vegar munu byggja undir áframhaldandi lífskjarabata og endurnýja stöðugleika. Það er tilgangurinn og það verkefni sem við höfum verið að fást við, beggja vegna samningaborðsins, síðustu vikur og mánuði,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, í tilkynningu.

SA hafði þegar skrifað undir samning við Starfsgreinasambandið en samningar við Eflingu eru enn útistandandi.

„Með undirritun samningsins í dag hefur SA samið við stærstu félögin á almennum vinnumarkaði sem samanstanda af meira en 80 þúsund manns, en líkt og kunnugt er náðust samningar milli SA og SGS í síðustu viku. Efling stendur ein utan sáttar og sem fyrr standa vonir til að ná samningum við þau fyrr en síðar,“ segir í tilkynningu SA.

© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)