Orkan, dótturfélag Skeljar fjárfestingarfélags, undirritaði í dag kaupsamning um kaup á öllum 53,1% hlut Kaupfélags Suðurnesja í Samkaupum, sem rekur verslanir m.a. undir merkjum Nettó, fyrir 2.878 milljónir króna, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.

Kaupverðið verður greitt með afhendingu á nýju hlutafé í Orkunni sem á hálfs milljarðs króna hlut í Samkaupum vegna sameiningar Samkaupa og Atlögu (sem hét áður Heimkaup). Samkeppniseftirlitið heimilaði samruna félaganna á dögunum.

Samkaup er metið á 5,6 milljarða króna í viðskiptunum eða 13 krónur á hlut. Viðskiptaverð felur í sér að heildarvirði Samkaupa (e. enterprise value) sé 9,6 milljarðar króna út frá skuldastöðu í lok fyrsta ársfjórðungs.

Viðskiptin eru m.a. háð því að Orkan hafi komist að skuldbindandi samkomulagi við aðra hluthafa í Samkaupum um kaup á eignarhlut þeirra í félaginu þannig að samanlagður eignarhlutur Orkunnar og annarra aðila tengdum Skeljar nemi að lágmarki 90,01% í kjölfar viðskipta.

Verðmæti hlutabréfa Orkunnar við uppgjör viðskiptanna verður 10.669 milljónir króna‏. Orkan á jafnframt um 81% hlut í Lyfjavali sem er bókfærður á 1.928 milljónir króna.

Fram kemur að öðrum hluthöfum Lyfjavals verði gert tilboð um að ganga inn í viðskiptin á sömu skilmálum og ofangreind viðskipti, sem og öllum öðrum hluthöfum Samkaupa, eftir að skilyrðin eru uppfyllt.

Verði með sama sniði og skráð smásölufyrirtæki

Eftir uppgjör viðskiptanna og fyrirhugaða hlutafjáraukningu verður hlutur Skeljar í móðurfélagi samstæðu Samkaupa um 63% og áætlað virði eignarhlutar Skeljar um 13,5 milljarðar króna.

Meðal skilyrða viðskiptanna er að fyrir liggi skuldbindandi áskriftarloforð frá fjárfestum, eða sölutrygging íslensks banka, um áskrift að nýju hlutafé í Orkunni, eða nýju móðurfélagi samstæðu, að verðmæti a.m.k. 2.000 milljónir króna sem skal nýtt til að efla fjárhagsstöðu Samkaupa.

„Samningur aðila gerir ráð fyrir að samstæða félaganna verði mynduð með sambærilegu sniði og skráð smásölufyrirtæki hérlendis. Samstæðan mun í upphafi starfa á sviði matvöru, orku, bílaþvottar og lyfsölu og verða sviðin rekin á samstæðugrunni,“ segir í tilkynningu Skeljar til Kauphallarinnar.

„Við erum ánægð að vera skrefinu nær því að búa til nýtt afl á íslenskum smásölumarkaði. Það er í samræmi við þau markmið sem við kynntum í síðasta uppgjöri um þróun á samstæðu Orkunnar. Samkaup er félag með langa sögu og trausta viðskiptavini um allt land. SKEL mun leggja áherslu á að einfalda reksturinn, draga úr kostnaði og setja viðskiptavininn í fyrsta sæti,“ segir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skeljar.

„Þær áherslur hafa gefist vel í rekstri Orkunnar. Samkaup og Heimkaup (nú Atlaga ehf.) hafa glímt við áskoranir í sínum rekstri, með sameiningu félaganna og endurskipulagningu rekstrar verður til öflugur keppinautur á markaði.”