Samkaup hafa gert samning við Pure North um heildstæða ráðgjöf í úrgangsstjórnun verslana Nettó, Kjörbúðar, Krambúðar og Iceland um land allt. Hlutverk Pure North verður að halda utan um og bæta úrgangsstjórnun Samkaupa.

Í tilkynningu segir að Pure North muni aðstoða Samkaup í þessari vegferð næstu tvö árin hið minnsta.

„Við hjá Samkaupum höfum sett okkur metnaðarfull markmið og viljum vera leiðandi afl á sviði hringrásar og sjálfbærni í matvöruverslun. Pure North er frábær viðbót við samstarfsaðila okkar og mikilvægur hlekkur í skilvirkri vinnu í samfélaginu hvað varðar minnkun úrgangs á landsvísu,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa.

Markmiðið með samningnum er að draga úr sóun með aukinni flokkun á öllum starfsstöðvum samstæðunnar og sýna samfélagslega ábyrgð í verki með gagnsæi í flokkun á sorpi, minna kolefnisspori sem og skilvirkari úrvinnslu á þeim efnum sem falla til. Einnig verður hugað að minna kolefnisspori á öllum flutningaleiðum til og frá verslunum og starfsstöðvum Samkaupa.

„Með þessu samstarfi eru Samkaup að sýna þann metnað sem þarf til að gera róttækar breytingar í rekstri og ná þannig markmiðum sínum í umhverfis- og loftslagsmálum, en einnig til að styðja við hringrásarhagkerfið,“ Börkur Smári Kristinsson, nýsköpunar- og þróunarstjóri hjá Pure North.

Sérfræðingar Pure North munu heimsækja starfsstöðvar Samkaupa og gera þar ítarlega úttekt á ferlum, kostnaði og árangri í flokkun. Gerð verður þarfagreining og í kjölfarið verður nýr vélbúnaður og nýir verkferlar innleiddir til söfnunar og meðhöndlunar á lífrænum úrgangi sem fellur til í verslunum.