Samkaup, sem rekur m.a. verslanir Nettó og Kjörbúðarinnar, hagnaðist um 268 milljónir króna árið 2023 samanborið við 192 milljóna tap árið áður. Stjórn félagsins leggur til að allt að 50 milljónir króna verði greiddar í arð til hluthafa á árinu 2023, að því er kemur fram í nýbirtri ársskýrslu félagsins.

Vörusala Samkaupa jókst um 4,4% á milli ára og nam rúmum 42,3 milljörðum, samanborið við rúma 40 milljarða árið áður. Framlegð jókst um 10% frá fyrra ári og nam 11 milljörðum. Rekstrarhagnaður (EBIT) jókst úr 359 milljónum í 985 milljónir milli ára.

„Síðasta ár var krefjandi á dagvörumarkaði með miklum kostnaðarhækkunum. Fordæmalausar verðhækkanir birgja og framleiðenda, dýrir kjarasamningar og hátt vaxtastig og verðbólga,“ segir í tilkynningu Samkaupa.

„Dagvörumarkaðurinn dróst saman í upphafi árs en fór að rétta úr kútnum yfir sumarið og hélt sú þróun áfram út árið. Innkaupsverð hækkaði mikið á árinu en alls bárust um 300 tilkynningar um verðhækkanir frá birgjum á árin sem hafði veruleg áhrif á framlegð. Laun hækkuðu mikið á árinu.“

Samkaup reka meira en 60 verslanir víðsvegar um land undir merkjum Nettó, Kjörbúðarinnar, Krambúðarinnar og Iceland.

Eignir samstæðunnar voru bókfærðar á 18,3 milljarða króna í árslok 2023, samanborið við 20,1 milljarð árið áður. Eigið fé nam 3,1 milljarði um áramótin og eiginfjárhlutfall var 17,2%, samanborið við 15% ári áður.

„Ef við drögum árið 2023 saman þá er mikil vinna og útsjónarsemi stjórnendateymis Samkaupa sem marka uppgjörið. Allir þjónustusamningar voru endurskoðaðir eða sagt upp, fækkað var í yfirstjórn og á skrifstofu, verslun lokað og opnunartími verslana endurskoðaður,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa.

„Þrátt fyrir þennan mikla fókus á innri vinnu misstum við aldrei sjónar á því markmiði okkar að bjóða viðskiptavinum okkar gæðavörur á góðu og samkeppnishæfu verði. Má nefna að á síðasta ári lækkuðum við verð á Xtra vörumerkinu okkar til þess að koma til móts við viðskiptavini okkar og sporna gegn áhrifum verðbólgu á dagleg innkaup fólks. Þá nýttum við síðasta ár í að þróa appið okkar áfram en það veitir viðskiptavinum okkar 2% appslátt af allri verslun í öllum verslunum Samkaupa.“