Samkaup hefur lagt fram jafnréttistefnuna Jafnrétti fyrir öll – Samkaup alla leið þar sem áhersla er lögð á 3 minnihlutahópa sem vinna hjá Samkaupum, erlent starfsfólk, hinsegin starfsfólk og starfsfólk með fötlun.
„Við settum þetta verkefni af stað til að taka þá minnihlutahópa sem vinna hjá okkur og gera þeim hærra undir höfði. Við komum öll frá mismunandi bakgrunni og fólk er misvel frætt um fjölbreytileikann sem er til staðar í okkar samfélagi,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs Samkaupa.
Meðal þess sem Samkaup hefur lagt áherslu á er að greiða öll íslenskunámskeið að fullu fyrir erlent starfsfólk. Þá býður Samkaup einnig upp á ensku námskeið fyrir stjórnendur félagsins.
„Við getum ekki sagt öllum þeim sem koma erlendis frá að læra íslensku án þess að við mætum þeim út frá þeirra forsendum og mætum þeim.“
Hún segir fordóma, meðal annars gagnvart þessum þremur hópum, gera það að verkum að samskiptaörðugleikar geta orðið milli starfsfólks.
„Oft höldum við að við séum að tala við einhvern sem er alveg eins og við sjálf. En eins og við vitum kemur fólk frá mismunandi bakgrunni, menningarheimi og uppeldi og því er mikilvægt að við mætum fólki eins og það vill láta mæta sér.“
Samkaup hefur gert samstarfssamninga við þrjú samtök sem standa vörð um málefni þessara þriggja hópa. Samtökin eru Mirra fræðslu- og rannsóknarsetur, Samtökin ´78 og Þroskahjálp. Markmið samningana segir Gunnur vera að tryggja fræðslu til starfsfólks og greiða aðgang þess að sérfræðiþekkingu þessara samtaka þegar upp koma mál sem þarf að stíga inn í.
„Við höfum kallað saman rýnihópa sem samanstanda af þessum þremur minnihlutahópum og höfum mælt hvernig fólkið upplifir vinnustaðina út frá jafnrétti. Þá höfum við verið með vinnustofur fyrir hverja einustu verslun þar sem farið hefur verið yfir jafnréttismál og stefnu Samkaup í málaflokknum.“

Jafnréttisráð Samkaupa
Samkaup setti jafnréttisráð á laggirnar þar sem 20 manns, þvert á deildir innan fyrirtækisins um allt land, buðu sig fram og eru sérstakir sendiherrar jafnréttismála. Þess má geta að hjá Samkaupum starfa um 1.500 manns á 65 starfsstöðvum, þar af 64 verslunum.
„Ég held að þetta sé einsdæmi. Sendiherrarnir bera á borð atriði sem snúa að jafnréttismálum til stjórnenda og hafa umboð til að taka á málum sem koma upp er varða starfsfólk eða viðskiptavini. Með jafnréttisráði getum við lagst í aðgerðir á bak við þá stefnu sem við höfum sett okkur.“
Vilja útrýma fordómum
Hún segir lokamarkmiðið að hafa áhrif á önnur fyrirtæki, á samfélagið í heild, og að útrýma fordómum.
„Ef Samkaup getur verið jákvætt afl til fleiri fyrirtækja þá höfum við náð markmiði okkar. Okkur finnst mikilvægt að taka jafnréttismálin í víðara samhengi en bara kynjajafnrétti þó það sé auðvitað mikilvægt. Við erum ekki að standa í þessu til að skapa samkeppnisforskot, heldur viljum við búa til afl sem hreyfir við heildinni og samfélaginu.“