Óttar Örn Sigurbergsson, framkvæmdastjóri Elko, segir verslunina ekki hafa farið varhluta af þeirri auknu samkeppni sem hafi fylgt miklum vexti í erlendri og innlendri netverslun undanfarin ár.

Það sé þó algjört lykilatriði að kvarta ekki undan samkeppninni heldur nýta hana sem hvata til að gefa í. „Við verðum einfaldlega að hlaupa hraðar og með lægri kostnaði en samkeppnisaðilarnir.“

Að sögn Óttars hafa truflanir í flutnings- og aðfangakeðjum haft takmörkuð áhrif á starfsemi Elko sem er með sérleyfissamning við norsku verslanakeðjuna Elkjop. Sterk samningsstaða í formi stærðar felist í samstarfinu við Elkjop sem hafi komið sér vel í gegnum tíðina. „Við höfum ekki fundið fyrir miklum vöruskorti vegna heimsfaraldursins og innrásar Rússlands í Úkraínu í ljósi þess hversu sterka bakhjarla við höfum. Aftur á móti höfum við fundið fyrir skorti á Playstation 5 og ákveðnum íhlutum í vinsæla farsíma, en það er almennt vandamál á heimsvísu.“

Sérleyfissamningur við Elkjop

Elko hefur verið með sérleyfissamning við Elkjop frá árinu 1998. Ólíkt mörgum slíkum samningum þá heita verslanir Elkjop ekki endilega sama nafninu á milli landa. Í Finnlandi heita þær til að mynda Gigantti, Elgiganten í Danmörku og Svíþjóð, Elding í Færeyjum og Pisiffik í Grænlandi. Verslanir sem starfa á sérleyfissamningi við Elkjop þurfa að standast ákveðnar útlits- og vöruúrvalskröfur. „Viðskiptavinurinn á ekki að finna neinn mun á því að ganga inn í okkar verslun eða verslun Elkjop í Osló,“ segir Óttar.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.