Með sífellt fleiri streymisveitum á markaðnum hefur meðalsjónvarpsáhugamaður horft fram á að þurfa að greiða mánaðargjald hjá mörgum streymisveitum í einu til að geta horft á allt það efni sem hann langar til að sjá. Undanfarið hefur þó átt sér stað aukin samþjöppun á markaðnum sem á að einfalda líf viðskiptavinarins.

Í vor tilkynntu Disney og Warner Bros. Discovery um samstarf á milli streymisveitnanna Disney+, Hulu og HBO Max, en Disney á fyrri tvær veiturnar á meðan HBO Max er í eigu Warner Bros. Þannig geta neytendur nú fengið aðgang að veitunum þremur á 16,99 dali á mánuði með auglýsingum en 29,99 dali á mánuði án auglýsinga.

„Þetta er dæmi um samþjöppun á markaðnum sem mun bara aukast. Nýlega var tilkynnt um sameiningu Paramount Global og Skydance, sem verður áhugavert að fylgjast með. Ég geri líka ráð fyrir fleira samstarfi eins og hjá Disney+, Hulu og Max. Streymisveitur eru í samstarfi við marga dreifingaraðila um vöndla og það er ekkert því til fyrirstöðu að vera í samstarfi hver við annan,“ segir Kristjana Thors Brynjólfsdóttir, þróunarstjóri sjónvarpslausna hjá Sýn og sérfræðingur um streymisveitumarkaðinn.

Það hefur þó orðið örlítið hikt á samstarfinu en fyrir rúmlega viku síðan samþykktu dómstólar í New York kröfu íþróttastreymisveitunnar FuboTV um bráðabirgðabann á sameiginlega íþróttastöð Walt Disney, Fox og Warner Bros Discovery. David Gandler, meðstofnandi og forstjóri Fubo, lýsti dómnum sem sigri fyrir neytendur.

Kristjana bætir við að fleira áhugavert samstarf sé í gangi á tæknihlið streymisveitumarkaðarins.

„Fjögur fjölmiðlafyrirtæki á Norðurlöndunum, SVT, YLE, NRK og TV2, hafa þróað „intercom“ kerfi fyrir sjónvarpsframleiðslu með því að nota tækni sem er notuð í leikjaheiminum. Mér þætti áhugavert að sjá fleira samstarf milli streymisveita á vettvangi sjónvarps.“

Kristjana Thors Brynjólfsdóttir, þróunarstjóri sjónvarpslausna hjá Sýn.
© Sunday & White studio (Sunday & White studio)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.