Samkeppniseftirlitið hefur lokið rannsókn sinni á kaupum Landsbankans á TM og hefur málið endað með sátt þar sem Landsbankinn hefur samþykkt sérstök skilyrði til að tryggja samkeppni á markaðnum.
Þar með hefur fyrirvörum í kaupsamningi sem lúta að samþykki fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Samkeppniseftirlitsins verið aflétt.
Samkvæmt tilkynningu frá Kviku banka mun afhending á tryggingafélaginu til Landsbankans fara fram 28. febrúar næstkomandi og mun Landsbankinn greiða Kviku banka umsamið kaupverð við afhendingu.
Í tilkynningu Kviku banka segir að um líkt og samið varum í maí í fyrra er kaupverðið 28,6 milljarðar og miðast það við efnahagsreikning TM í upphafi árs 2024.
Endanlegt kaupverð verður aðlagað miðað við breytingar á efnislegu eigin fé TM frá upphafi árs 2024 til afhendingardags.
Í kjölfar viðtöku á kaupverði hyggst stjórn Kviku banka leggja til á aðalfundi bankans þann 26. mars næstkomandi sérst arðgreiðslu til hluthafa bankans og verður sú tillaga birt samhliða öðrum tillögum stjórnar til aðalfundar eigi síðar en þann 5. mars næstkomandi.
Samkvæmt tilkynningu Samkeppniseftirlitsins hefur TM sterka stöðu á viðskiptabankamarkaði.
Samkeppniseftirlitið taldi að kaup Landsbankans á TM gætu haft áhrif á samkeppni, sérstaklega þegar kemur að markaðssetningu vátrygginga TM í gegnum dreifikerfi Landsbankans. Ef engar ráðstafanir yrðu gerðar myndi samruni fyrirtækjanna hugsanlega trufla samkeppni á þessum markaði.
Á þeim grundvelli hefur Landsbankinn samþykkt að taka þátt í sátt við Samkeppniseftirlitið, þar sem bankinn mun leggja sérst áherslu á að tryggja samkeppni á viðskiptabankamarkaði. Sérstök kjör á vátryggingum TM verða ekki háð því skilyrði að laun viðskiptavina séu greidd inn á reikning hjá bankanum. Þessu ákvæði er ætlað að tryggja að smærri keppinautar á markaðnum fyrir viðskiptabankaþjónustu verði ekki útilokaðir vegna slíks skilyrðis, sem myndi annars hafa neikvæð áhrif á samkeppni.
Landsbankinn hefur einnig skuldbundið sig til að vinna áfram í samræmi við fyrri sáttir, sem settar voru fram í ákvörðun nr. 22/2017, sem miða að því að auka samkeppni á viðskiptabankamarkaði. Með þeirri sátt var meðal annars bannað uppgreiðslugjald á lánum með breytilegum vöxtum og tryggt að vextir yrðu ekki hækkaðir eða vaxtaafsláttur felldur niður vegna þess að viðskiptavinir hættu að vera með launareikning hjá bankanum.
Samkeppniseftirlitið mun í framhaldinu birta ítarlega ákvörðun þar sem niðurstöður rannsóknarinnar verða útskýrðar nánar.
Sáttin sem náðist tryggir að kaup Landsbankans á TM verði samþykkt með þeim skilyrðum sem stuðla að heilbrigðri samkeppni á markaðnum sem mun bæði verja rétt smærri keppinauta og stuðla að hagsmunum viðskiptavina, að mati eftirlitsins.