Ríki og sveitarfélög undirrituðu í dag samkomulag um breytingu á fjárhagsramma þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Samkomulagið felur í sér að útsvarsprósenta sveitarfélaga hækkar um 0,23% með samsvarandi lækkun tekjuskattsprósentu ríkisins og nemur hækkunin um sex milljörðum króna miðað við árið 2024.
Í kjölfar samkomulags frá í desember 2022 fluttust 5,7 milljarðar króna frá ríki til sveitarfélaganna miðað við árið 2024 og er heildarhækkun því tæplega 12 milljarðar króna.
Ríki og sveitarfélög undirrituðu í dag samkomulag um breytingu á fjárhagsramma þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Samkomulagið felur í sér að útsvarsprósenta sveitarfélaga hækkar um 0,23% með samsvarandi lækkun tekjuskattsprósentu ríkisins og nemur hækkunin um sex milljörðum króna miðað við árið 2024.
Í kjölfar samkomulags frá í desember 2022 fluttust 5,7 milljarðar króna frá ríki til sveitarfélaganna miðað við árið 2024 og er heildarhækkun því tæplega 12 milljarðar króna.
Undir samkomulagið rituðu Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.
„Í dag náðum við afar mikilvægum áfanga varðandi kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í málefnum fatlaðs fólks, og það er mikið gleðiefni. Sveitarfélögin fá umtalsverða aukningu fjármagns til málaflokksins,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Í tilkynningu segir að hækkun útsvarsins muni renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og verða hluti af framlögum sjóðsins sem veitt eru til sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks.
Í júlí 2022 skipaði félags- og vinnumarkaðsráðherra starfshóp sem hafði það hlutverk að móta tillögur um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk. Samkomulagið sem nú hefur verið undirritað byggist á vinnu hópsins.
„Fjárhagsrammi málaflokks fatlaðs fólks styrkist verulega með samkomulaginu, en það felur í sér að ríkið hefur þá veitt hátt í 12 milljörðum króna til eflingar málaflokksins frá árinu 2022. Það er ánægjulegt að loks fáist niðurstaða milli ríkis og sveitafélaga í þessum veigamikla málaflokki,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra.