Bandaríska hraðsendingarfyrirtækið UPS hefur samið við Teamsters, verkalýðsfélag starfsmanna fyrirtækisins. Bráðabirgðasamkomulagið kemur í veg fyrir verkfall sem hafði verið yfirvofandi í nokkra mánuði.
Samkvæmt samningnum verða byrjunarlaun hækkuð í 21 dali á klukkustund og verður einnig bætt úr vinnuaðstæðum. UPS fagnar samkomulaginu og kallar þetta „win-win-win“ samning.
Carol Tomé, framkvæmdastjóri UPS, segir að samningurinn myndi halda áfram að verðlauna starfsmenn fyrirtækisins með „leiðandi launum og fríðindum“, samhliða því að halda fyrirtækinu samkeppnishæfu.
UPS er með stærsta verkalýðsbundna starfsmannahóp af öllum fyrirtækjum í Bandaríkjunum en rúmlega 300.000 starfsmenn eru meðlimir í verkalýðsfélaginu Teamsters. Verkfall meðal þessara starfsmanna hefði haft í för með sér töluverðar afleiðingar fyrir bandaríska efnahaginn en UPS flytur um fjórðung allra þeirra pakka sem sendir eru um Bandaríkin.
Í byrjun mánaðar slitnuðu kjaraviðræður milli UPS og Teamsters og leit út fyrir að verkafall myndi eiga sér stað. Hefði það gerst hefði það verið fyrsta verkfall hjá UPS í meira en aldarfjórðung. Starfsmenn höfðu lengi vel kvartað yfir miklu vinnuálagi sem kom í kjölfar heimsfaraldurs og höfðu meðal annars farið fram á betri loftkælingu í sendiferðabílum fyrirtækisins.
Frá og með 1. janúar 2024 verða allir nýir sendiferðabílar með innbyggða loftkælingu og munu meðallaun fyrir núverandi starfsfólk hækka um 48% fyrir árið 2028.