Hagnaður Ísfélags Vestmannaeyja nam 39 milljónum dala í fyrra, sem samsvarar um 5,3 milljörð um króna á gengi dagsins. Tekjur félagsins jukust um rúm 18% á milli ára og námu 194 milljónum dala, sem samsvarar um 26,3 milljörðum króna á núverandi gengi. Samkvæmt árs uppgjöri skýrist tekjuaukningin að mestu vegna sameiningar Ramma hf. og Ísfélagsins um mitt ár 2023.
Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélagsins, segir áskoranir hafa fylgt rekstri útgerðarfélagsins í ár, sér í lagi vegna loðnubrests. „Þetta er búið að vera erfitt ár því það var engin loðnuvertíð og svo gekk makríl vertíðin illa. Það hefur því heldur blásið á móti miðað við undanfarin ár,“ segir Stefán.
Spurður um hvort hann sé von góður um loðnuvertíð á næsta ári, segir hann erfitt að spá fyrir um það. „Loðnan er fiskur sem lifir fá ár og verður aðeins þriggja til fjögurra ára gömul. Þannig að það er afar erfitt að spá fyrir um framtíðina í þessum stofni,“ segir Stefán.
Hafrannsóknarstofnun lauk nýverið við loðnuleit og var niðurstaðan sú að Hafró leggur ekki til loðnuveiðar að svo stöddu. „Svo er alltaf annar leiðangur í janúar til að athuga hvort meira sé að koma eða minna,“ segir Stefán sem er hóflega bjartsýnn á stöðuna.
Sameiningu Ísfélagsins og Ramma lauk í lok júní í fyrra en af þeim sökum var rekstur Ramma ehf. á fyrstu sex mánuð um ársins ekki hluti af ársreikningi félagsins.
Í Pro forma-reikningi sem birtist samhliða uppgjöri Ísfélagsins, þar sem rekstur félaganna tveggja er tekinn saman fyrir allt árið, er hagnaður samstæðunnar 45 milljónir dala eða um 6,1 milljarður á núverandi gengi.
Spurður um hvernig sameining Ísfélagsins og Ramma hefur gengið, segir Stefán talsverða samlegð með félögunum tveimur. „Það er gott fólk sem kemur frá báðum félögum. Menn hafa gengið í takt við að ná þeim breytingum fram og þeirri auknu samlegð sem lá fyrir að væri,“ segir Stefán.
Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Blaðið er opið öllum og hægt er að skoða það hér.