Hagnaður Ís­fé­lags Vest­manna­eyja nam 39 milljónum dala í fyrra, sem sam­svarar um 5,3 milljörð um króna á gengi dagsins. Tekjur fé­lagsins jukust um rúm 18% á milli ára og námu 194 milljónum dala, sem sam­svarar um 26,3 milljörðum króna á nú­verandi gengi. Sam­kvæmt árs upp­gjöri skýrist tekju­aukningin að mestu vegna sam­einingar Ramma hf. og Ís­fé­lagsins um mitt ár 2023.

Stefán Frið­riks­son, fram­kvæmda­stjóri Ís­fé­lagsins, segir á­skoranir hafa fylgt rekstri út­gerðar­fé­lagsins í ár, sér í lagi vegna loðnu­brests. „Þetta er búið að vera erfitt ár því það var engin loðnu­ver­tíð og svo gekk makríl ver­tíðin illa. Það hefur því heldur blásið á móti miðað við undan­farin ár,“ segir Stefán.

Spurður um hvort hann sé von góður um loðnu­ver­tíð á næsta ári, segir hann erfitt að spá fyrir um það. „Loðnan er fiskur sem lifir fá ár og verður að­eins þriggja til fjögurra ára gömul. Þannig að það er afar erfitt að spá fyrir um fram­tíðina í þessum stofni,“ segir Stefán.

Haf­rann­sóknar­stofnun lauk ný­verið við loðnu­leit og var niður­staðan sú að Haf­ró leggur ekki til loðnu­veiðar að svo stöddu. „Svo er alltaf annar leið­angur í janúar til að at­huga hvort meira sé að koma eða minna,“ segir Stefán sem er hóf­lega bjart­sýnn á stöðuna.

Sam­einingu Ís­fé­lagsins og Ramma lauk í lok júní í fyrra en af þeim sökum var rekstur Ramma ehf. á fyrstu sex mánuð um ársins ekki hluti af árs­reikningi fé­lagsins.

Í Pro forma-reikningi sem birtist sam­hliða upp­gjöri Ís­fé­lagsins, þar sem rekstur fé­laganna tveggja er tekinn saman fyrir allt árið, er hagnaður sam­stæðunnar 45 milljónir dala eða um 6,1 milljarður á nú­verandi gengi.

Spurður um hvernig sam­eining Ís­fé­lagsins og Ramma hefur gengið, segir Stefán tals­verða sam­legð með fé­lögunum tveimur. „Það er gott fólk sem kemur frá báðum fé­lögum. Menn hafa gengið í takt við að ná þeim breytingum fram og þeirri auknu sam­legð sem lá fyrir að væri,“ segir Stefán.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Blaðið er opið öllum og hægt er að skoða það hér.